Loftslagsmál og bætt loftgæði
Draga þarf úr losun
Einn helsti árangursvísir í umhverfismálum er losun gróðurhúsalofttegunda. Losunin er iðulega gefin upp í svokölluðum koldíoxíð-ígildum (CO2-ígildum) sem nær yfir þær fjölmörgu lofttegundir sem valda loftslagsbreytingum. Með notkun CO2-ígilda er hægt að einfalda samtalið um gróðurhúsaáhrifin töluvert- með því að tala um allar lofttegundirnar með einni mælieiningu. CO2-ígildi þjóna svipuðu hlutverki og gjaldmiðlar en í stað þess að tala um virði einhvers í lömbum og kartöflum þá getum við talað um það í krónum eða CO2-ígildum.
Árlega skilar Umhverfisstofnun Losunarbókhaldi Íslands (e. National Inventory Report) til Evrópusambandsins og Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (e. United Nation Framework Convention on Climate Change), oft kallaður Loftslagssamningurinn, í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Samkvæmt nýjasta losunarbókhaldi Íslands kom í ljós að losun milli áranna 2017 og 2018 jókst um 0,4% og hefur losunin verið nokkuð stöðug frá árinu 2011. Því er ljóst að betur má ef duga skal.
Stofnunin kappkostar að skila losunarbókhaldinu innan uppgefins tímaramma og sjá má síðustu skil á vefsíðu Loftslagssamningins. Í framhaldinu á sér stað úttektarferli þar sem tryggt er að bókhaldið uppfylli ströngustu kröfur. Aðferðafræðin sem notast er við er samræmd milli landa.