Ávarp forstjóra

Kæri lesandi, ársskýrsla Umhverfisstofnunar er nú birt á rafrænu formi í annað sinn. Ávarp forstjóra finnur þú í spilaranum hér að ofan en auk þess segja sérfræðingar stofnunarinnar frá helstu verkefnum á sviði loftslags-, náttúruverndar- og vatnamála í örerindum hér að neðan. Líkt og áður endurspeglar skýrslan þau markmið sem Umhverfisstofnun hefur sett sér til ársins 2022 og drögum við fram þá árangursvísa sem hvað best lýsa hlutverki okkar og starfsemi á liðnu ári. Síðast en ekki síst finnur þú umhverfis- og fjármálaskýrslu stofnunarinnar í valmyndinni hér að ofan. Við vonum að lesturinn sé upplýsandi og gefi þér innsýn í starf okkar.

Loftslagsmál og bætt loftgæði

Draga þarf úr losun

Einn helsti árangursvísir í umhverfismálum er losun gróðurhúsalofttegunda. Losunin er iðulega gefin upp í svokölluðum koldíoxíð-ígildum (CO2-ígildum) sem nær yfir þær fjölmörgu lofttegundir sem valda loftslagsbreytingum. Með notkun CO2-ígilda er hægt að einfalda samtalið um gróðurhúsaáhrifin töluvert- með því að tala um allar lofttegundirnar með einni mælieiningu. CO2-ígildi þjóna svipuðu hlutverki og gjaldmiðlar en í stað þess að tala um virði einhvers í lömbum og kartöflum þá getum við talað um það í krónum eða CO2-ígildum.

Árlega skilar Umhverfisstofnun Losunarbókhaldi Íslands (e. National Inventory Report) til Evrópusambandsins og Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (e. United Nation Framework Convention on Climate Change), oft kallaður Loftslagssamningurinn, í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Samkvæmt nýjasta losunarbókhaldi Íslands kom í ljós að losun milli áranna 2017 og 2018 jókst um 0,4% og hefur losunin verið nokkuð stöðug frá árinu 2011. Því er ljóst að betur má ef duga skal.

Stofnunin kappkostar að skila losunarbókhaldinu innan uppgefins tímaramma og sjá má síðustu skil á vefsíðu Loftslagssamningins. Í framhaldinu á sér stað úttektarferli þar sem tryggt er að bókhaldið uppfylli ströngustu kröfur. Aðferðafræðin sem notast er við er samræmd milli landa.

Verndun náttúru

Ástand áfangastaða á friðlýstum svæðum batnar

Ástand áfangastaða innan friðlýstra svæða er tekið út árlega með það að markmiði að verndargildi svæðanna sé viðhaldið. Með reglulegu mati á ástandi er það markmið Umhverfisstofnunar að svæðum í hættu fækki og að stofnunin hafi verkfæri til að bregðast við hnignandi ástandi áður en skaði hlýst af. 

Helstu niðurstöður úr skýrslu um ástand ferðamannastaða innan friðlýstra svæða árið 2019 eru þær að ástand margra áfangastaða hefur batnað á milli ára. Hefur þar aukning í landvörslu og innviðauppbyggingu skilað miklu. Má því til stuðnings nefna að milli áranna 2018 og 2019 fjölgaði svæðum á grænum lista, þ.e. svæði sem standa mjög vel það álag sem á þeim er, úr 23 í 34.

Árið 2019 voru áfangastaðir innan Friðlands að Fjallabaki og Dettifoss að austan metnir í hættu annað árið í röð. Breytingin milli ára er þó sú að einkunn Rauðafoss hefur hækkað lítillega og mun líklega komast af svokölluðum rauðum lista árið 2020, vegna þeirra framkvæmda sem þar eru fyrirhugaðar.

Áfangastaðir sem eiga á hættu að tapa verndargildi sínu eru á svokölluðum appelsínugulum lista. Fjölmennir ferðamannastaðir eins og Skógarheiði við Skógarfoss, Laugahringurinn og Laugavegurinn innan Friðlands að Fjallabaki hafa unnið sig af þeim lista, hins vegar hafa nýir áfangastaðir bæst við þar sem umgengni og gróðurskemmdir eru að draga niður einkunn. 

Verndun vatns, hafs og stranda

Fyrsta vatnaáætlunin í bígerð

Umhverfisstofnun vinnur nú að því að gefa út fyrstu vatnaáætlun fyrir Ísland í tengslum við lög um stjórn vatnamála. Sú vinna er unnin í samvinnu við fjölmarga aðila enda mikilvægt að fagleg þekking og sjónarmið sem flestra komist að. Markmiðið er að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa, votlendis og vistkerfa sem eru háð vatni, til að stuðla að því að vatn njóti heildstæðrar verndar. Vatnaáætlun samanstendur af vöktunaráætlun sem hefur þann tilgang að meta álag, ástand og langtímabreytingar og aðgerðaáætlun sem miðar að því að viðhalda góðum gæðum vatns og koma vatnshlotum sem ekki eru í góðu ástandi í gott ástand.

Umhverfisstofnun hefur lagt fram bráðabirgðayfirlit vatnaáætlunar sem hefur þann tilgang að upplýsa almenning og hagsmunaaðila um stöðu vinnunnar auk þess sem gefinn var kostur á því að koma með ábendingar og athugasemdir. Drög að vatnaáætlun verða auglýst til kynningar í sex mánuði árið 2021 og gert er ráð fyrir að fyrsta vatnáætlun Íslands taki gildi árið 2022.

Verndun heilnæms umhverfis

Þekkir þú hættumerkin?

Ýmsar algengar neytendavörur, svo sem hreinsiefni, stíflueyðar, grillvökvar, duft fyrir uppþvottavélar og tauþvottaefni innihalda efni sem geta verið hættuleg. Mikilvægt er að notendur hafi vitneskju um áhættuna sem getur stafað af slíkum vörum, lesi leiðbeiningar og umgangist þær á réttan hátt til þess að forðast slys og vernda umhverfið. Umhverfisstofnun fer fyrir þessum málaflokki hér á landi og hefur látið gera þrjár kannanir á þekkingu almennings á merkingum á vörum sem innihalda hættuleg efni. Niðurstöðurnar eru notaðar til að meta árangur af kynningarstarfi stofnunarinnar hvað þetta varðar og hvar þurfi að gera betur.

Í síðustu könnun Umhverfisstofnunar kom í ljós að 45% svarenda þekktu hættumerki á neytendavörum en um 30% töldu að úreltar, eldri merkingar væru þær réttu. Þá kom í ljós að konur fara frekar en karlar eftir leiðbeiningum um notkun á vörum sem bera hættumerkingar og eru ólíklegri til að kaupa slíkar vörur.

Sjálfbær nýting auðlinda

Saman gegn sóun

Á árinu sem leið stóð Umhverfisstofnun fyrir árvekniátaki um ofnotkun á plasti. Undir formerkjum úrgangsforvarnarstefnu stjórnvalda Saman gegn sóun var unnið kynningarefni um „einnota óþarfa“, þar sem almenningur og fyrirtæki eru hvött til að gefa neysluhegðun sinni gaum og draga úr óþarfa plastnotkun. Átakið hlaut íslensku auglýsingaverðlaunin Lúðurinn 2019 í flokknum Almannaheill.

Kranavatn – drink responsibly er herferð á vegum Umhverfisstofnunar og Íslandsstofu undir merkjum Inspired by Iceland þar sem ferðamenn eru hvattir til að drekka kranavatn á ferð sinni um landið og draga þar með úr óþarfa einnota umbúðum. Herferðin fór af stað á vormánuðum og vakti mikla lukku.

Bláskelin , ný viðurkenning umhverfis- og auðlindaráðuneytisins var afhent í fyrsta skipti á opnunarhátíð Plastlauss september. Viðurkenningin er veitt fyrirtæki, stofnun, einstaklingi eða öðrum fyrir framúrskarandi lausnir sem stuðla að minni plastnotkun og plastúrgangi í samfélaginu. Vinningshafinn árið 2019 var Segull 67 brugghús á Siglufirði sem notar bjórkippuhringi úr lífrænum efnum í stað plasts.

Hugmyndasmiðjan Plastaþon var haldin í september, en þar kepptust teymi við að finna lausnir við plastvandanum með nýsköpun. Vinningslausnin, Beljur í búð, byggist á að setja upp sjálfsafgreiðsluvélar fyrir mjólkurvörur í verslunum þannig að kaupandinn geti dælt vörunni sjálfur í fjölnota umbúðir. 

Grænt og framsýnt samfélag

Eftirspurn eftir umhverfisfræðslu eykst

Með auknum áhuga á umhverfismálum hefur eftirspurn eftir umhverfisfræðslu aukist í samfélaginu. Á árinu héldu starfsmenn teymis græns samfélags fjöldann allan af fyrirlestrum fyrir almenning, fyrirtæki og stofnanir. Meðal vinsælustu umfjöllunarefna voru grænn lífsstíll, hringrásarhagkerfið, umhverfismerkið Svanurinn, úrgangsmál, Græn skref, matarsóun og umhverfisáhrif matvæla.

Plastaþon, hugmyndasmiðja um plastlausar lausnir, var haldið í fyrsta skipti síðastliðið haust en þar gafst almenningi og sérfræðingum færi á að mynda teymi og skapa lausnir á plastvandanum. Grænn.is, vefur Umhverfisstofnunar um grænan lífsstíl, nýtur sífellt meiri vinsælda og eykst umferð um vefinn með ári hverju. Starfsmenn Umhverfisstofnunar fagna þessum aukna áhuga á umhverfismálunum og stefnan er tekin á enn meiri fræðslu og samtal við samfélagið á komandi árum.

Markviss upplýsingagjöf

Gamall vefur fær nýtt andlit

Söfnun og miðlun upplýsinga um umhverfismál er eitt af meginverkefnum Umhverfisstofnunar. Stofnunin rekur fjölmörg vefsetur um mismunandi málefni til að miðla markvissum upplýsingum til almennings og hagaðila á einfaldan hátt. Auk aðalvefs stofnunarinnar, ust.is, má nefna loftgaedi.is, graenskref.is, svanurinn.is og matarsoun.is meðal annarra.

Í maí 2019 kynnti Umhverfisstofnun endurskipulagðan aðalvef. Nýr og fallegri vefur býður upp á auðveldara aðgengi að málaflokkum stofnunarinnar og snjalltækjavænt viðmót. Yfir 1.300 efnissíður voru á eldri vefnum (fréttir ekki meðtaldar) og öll teymi stofnunarinnar lögðu á sig umtalsverða vinnu við að endurskipuleggja veftré fyrir nýja vefinn til að tryggja betra og greiðara aðgengi að upplýsingum.

Einnig hefur verið lögð áhersla á að auka verulega framboð af ensku efni á nýja vefnum. Aukning erlendra ferðamanna hefur haft í för með sér stóraukna ásókn í upplýsingar á ensku um friðlýst svæði og önnur málefni tengd umhverfinu.

Fyrirmyndar stofnun

Almenn starfsánægja ríkjandi

Starfsánægja hefur verið mæld í könnuninni Stofnun ársins til fjölda ára. Það hefur gefið verðmæta vísbendingu um líðan starfsfólks hjá Umhverfisstofnun. Á árunum 2009 til 2015 var stofnunin rétt undir fjórum á fimm þrepa kvarða. Árin 2016 til 2019 var staðan rétt við fjóra. Síðustu fjögur árin hefur stofnunin verið í sætum 12 til 31 af um það bil 80 fyrirtækjum í heild í sínum stærðarflokki.

Mikilvægt er að skoða fleira en þessar niðurstöður þegar starfsánægja er metin. Meðal annars er fylgst með niðurstöðum starfsmannasamtala, starfsþróunaráætlunum og veikindatíðni. Þá gerir Umhverfisstofnun árlega nokkrar kannanir meðal starfsmanna um hin ýmsu málefni. Stofnuninni er mjög umhugað um að starfsfólki líði vel og sé ánægt í starfi.