Ný heimasíða um loftgæði

Í umræðu um loftmengun er ýmist rætt um loftgæði eða losun gróðurhúsalofttegunda. Í raun er um tvo ólíka málaflokka að ræða. Þegar rætt er um loftgæði er átt við loftgæði í andrúmslofti í nærumhverfi okkar, þ.e.a.s. hækkun á óæskilegum efnum í loftinu sem við öndum að okkur og sjáum stundum með berum augum. Losun gróðurhúsalofttegunda hverfist aftur á móti um losun lofttegunda sem hefur áhrif á jörðina í heild. Aukin losun leiðir til aukinna áhrifa, s.s. aukinnar bráðnunar jökla, hækkaðs sjávaryfirborðs, súrnunar sjávar, vaxandi öfga í veðurfari ofl. Það má til einföldunar segja að loftgæði eigi við hið staðbundna en losun gróðurhúsalofttegunda sé hnattrænn vandi.

Umhverfisstofnun setti á árinu 2018 upp nýja heimasíðu, loftgæði.is, þar sem almenningur á Íslandi getur allt árið um kring litið við og fengið mælingu á loftgæðum. Síðan er sett upp til að þjónusta almenning, koma af stað vitundarvakningu í loftgæðamálum og bæta þekkingu almenings.

Sjá má á stöplariti hér á síðunni að heimsóknir á síðuna eru nokkuð árstíðabundnar, enda meira svifryk á vetrum en sumrum og þá oft verri loftgæði. Mikil vakning er meðal sveitarfélaga og íbúa um svifryk. Stefnir Umhverfisstofnun að birtingu frekari upplýsinga til almennings um þessi mál, sjá nánar á loftgæði.is.