Umhverfis- og loftslagsbókhald Umhverfisstofnunar

Umhverfisstofnun leggur í rekstri sínum mikla áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og umhverfisáhrifum. Við höfum litið svo á að Umhverfisstofnun sé tilraunastofa nýrra hugmynda þegar kemur að þessum málaflokki. Þess vegna getur okkur mistekist en við breytum þá verkefnum eða reynum eitthvað nýtt.

Fyrir árið 2018 einbeitum við okkur að losunartölum vegna aksturs, flugs og úrgangs og stefnum að því að fjölga enn frekar losunartölunum bæði fyrir okkur og aðrar ríkisstofnanir og fyrirtæki.

Matarsóun

Matarsóun er fáránleg sóun! Frá árinu 2016 hefur Umhverfisstofnun fylgst með og greint matarsóun í mötuneyti sínu (þá er einungis átt við mat sem kom til okkar og var sendur aftur frá okkur). Með því að setja upp skráningarkerfi, fræða starfsmenn og þjónustuaðila, hvetja fólk til að fara aðra ferð í stað þess að fylla ekki á í óhófi og minnka diskana sjálfa náðum við að minnka matarsóun úr 29% í 13%. En árið 2018 leiddu nokkur atriði til þess að tök losnuðu á skráningum. Breytingar á mötuneyti, mannabreytingar og fleiri þættir urðu til þess að matarsóun jókst á ný um 33%. Lærdómurinn er að á meðan verkefni festa sig í sessi, þurfum við góð tök á þeim. Árið 2018 gerðum við einnig greiningu á matarsóun af diskum starfsmanna. Í ljós kom að starfsmenn henda um 1 kg af ætum mat á dag. Fjöldi starfsmanna í mötuneyti er mjög breytilegur en ef miðað er við 30 manns að jafnaði þá er það ekki mikil sóun á starfsmann.

Endurvinnsluhlutfall - Drögum úr úrgangsmagni og flokkum vel!

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri 2018 námu tekjur af almennum rekstri Umhverfisstofnunar 442,8 m.kr. árið 2018. Mynd 2 sýnir skiptingu helstu tekjuliða árið 2018.

Við tökum flokkun úrgangs mjög alvarlega og hafa starfsmenn sést á hvolfi ofan í ruslagámum að laga mistök í flokkun! Starfsmenn hafa einnig átt á hættu að ruslið þeirra, ef ekki flokkað, lendi í tilkynningarpóstum. Ýmsar aðgerðir eru í gangi til að draga úr úrgangsmagni s.s. pappírsnotkun, matarsóun, umbúðanotkun o.fl. Það væri auðvitað best að hafa sem minnstan úrgang en við getum í öllu falli verið ánægð með að flokka hann mjög vel. Endurvinnsluhlutfallið okkar nær 90% árið 2018 sem er mjög góður árangur. Úrgangsmagnið jókst þó um 48% en fyrir því eru tvær meginástæður. Mikil tiltekt í skrifstofum og geymslum varð til þess að meiru var hent sem ekki var hægt að flokka. Auk þess gerðum við úrbætur á tölum fyrir úrgangsmagn fyrir allar okkar starfstöðvar um allt land. Tvær starfstöðvar vigtuðu úrgang í tvær vikur og voru þær tölur framreiknaðar fyrir árið og fyrir alla okkar starfsmenn um allt land.

Samgöngur

Akstur - Rafmagnið hræðir ekki lengur! Við þurfum öll að læra að umgangast rafmagnsbíla og við erum misgóð í því. Þess vegna hélt Umhverfisráð örnámskeið fyrir alla starfsmenn stofnunarinnar þar sem kennt var á nýjan rafmagnsbíl með það að markmiði að hvetja til aukinnar notkunnar á honum.

Flug - Flugið er fíllinn í herberginu, það vitum við vel og erum mjög meðvituð um afleiðingar ferðalaga. Auknar alþjóðlegar kröfur og vaxandi umsvif Umhverfisstofnunar hafa kallað á sífellt fleiri ferðir, en árið 2018 náðum við að fækka ferðum innanlands og dró þar með úr heildarlosun vegna flugferða. Til að stemma stigu við flugi erlendis höfum við gert greiningu á flugferðum sem ætlunin er að senda út til notkunar fyrir allar ríkisstofnanir.

Umhverfisvænni samgöngur

Það er okkar mottó að vera til fyrirmyndar í umhverfisvænni samgöngum. Á árinu 2018 voru 49% starfsmanna okkar með samgöngusamning. Til frekari hvatningar bjóðum við líka uppá sumarsamninga sem hafa sannað tilverurétt sinn með því að hvetja fólk til að prófa, oftar en ekki ákveður fólk í kjölfarið að gera heilsárssamning. Það er SVO gott fyrir sálina að sleppa bílnum. Umhverfisstofnun fékk líka samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar og Gullvottun í hjólavottun vinnustaða árið 2018.


Samgönguviðurkenning Reykjavíkurborgar

Gullvottun vegna reiðhjólamenningar

Fræðsla og upplýsingar - Ef þú veist ekki eitthvað, hvernig getur þú þá bætt þig? Til að svara því höldum við reglulega fræðslu fyrir starfsfólkið okkar um umhverfismál, námskeið, fræðsluferðir og tökum þátt í t.d. Evrópskri hreinsunarviku, samgönguviku, Hjólað í vinnuna, Plastlaus september, Nýtniviku, Degi umhverfisins og Degi Náttúrunnar. Um leið og við gerum okkar, hvetjum við aðra til þess sama.

Neysla og Innkaup - Minna, minna, minna - segir það ekki allt? Innkaupin eru oft erfiður flokkur þegar kemur að því að velja rétt. Þess vegna hefur okkur reynst best að kaupa sem minnst inn. Þegar við nauðsynlega þurfum þess þá leggjum við áherslu á að vörurnar séu umhverfisvottaðar eða lífrænar.