Til að standa vörð um verndargildi friðlýstra svæða, sérstaklega þeirra sem eru fjölsótt, þarf umsjón og stýringu. Fjöldi unninna landvarðavikna er því ein vísbending um umfang umsjónar og stýringar á svæðunum. Stórfjölgun erlendra ferðamanna hingað til lands er áskorun á ýmsum sviðum og þá ekki síst er kemur að álagi á viðkvæmustu náttúruperlur landsins.
Okkar mat er að aukin landvarsla sé lykilatriði. Eins og sjá má af myndinni hér hefur heildarfjöldi vinnustunda á friðlýstum svæðum vaxið verulega seinni ár. Aukið álag kallar á aukna fjármuni og fleiri stöðugildi. Einnig má geta þess að Umhverfisstofnun hefur tekið að sér umsjón ýmissa svæða sem ekki eru friðlýst. Dæmi um það eru Reykjadalur, Fjaðrárgljúfur og Látrabjarg. Fjölgun landvarðavikna nær ekki að halda í við fjölgun ferðamanna. Ekki má heldur gleyma að auk þess sem landverðir gegna mikilvægi hlutverki við verndun svæðanna er síaukin krafa um aukna þjónustu út um allt land, sérstaklega á þeim friðlýstu svæðum sem laða til sín flesta gesti.
Þá má á þessari mynd sjá að umtalsverðu fjármagni hefur verið varið til uppbyggingar innviða á friðlýstum svæðum til að bregðast við fjölgun ferðamanna. Betri innviðir bæta ástand viðkvæmra svæða. Markmiðið er að allir áfangastaðir í náttúru Íslands komist á „græna listann“ samkvæmt ástandsmati ferðamannstaða. Við eigum enn nokkuð í land í þeim efnum.