Við strand flutningaskipsins Fjordvik við Helguvík þann 3. nóvember sl. komu margar stofnanir að björgun. Þar má nefna höfnina, Samgöngustofu, Olíudreifingu, Landhelgisgæsluna og Umhverfisstofnun. Þótt skipið hafi strandað innan hafnarsvæðis og aðgerðir hafi verið á ábyrgð viðkomandi hafnarstjóra þurfti gott samstarf allra viðbragðsaðila til að losa skipið af strandstað og koma því í örugga höfn.
Árið 2018 var fyrsta árið þar sem kallað var sérstaklega eftir viðbragðsáætlun hafna. Með slíkri áætlun er búið að skrá hvaða mengunarvarnarbúnaður sé hvar fyrir hendi og ástand hans. Hafnir bera ábyrgð á viðbragði innan hafnarsvæða en hægt er að óska eftir aðstoð Umhverfisstofnunar ef þörf er á. Viðbragðsáætlanir hafna skulu sem dæmi innihalda nöfn og síma lykiltengiliða og munar um minna þegar lífríkið er undir og engan tíma má missa. Á landinu eru alls 85 hafnir sem ættu að vera með samþykkta viðbragðsáætlun en í lok árs 2018 var staðan sú að eingöngu 18 hafnir höfðu fengið viðbragðsáætlun samþykkta af Umhverfisstofnun. Til að aðstoða hafnir við gerð viðbragðsáætlana og áhættumats vegna bráðamengunar innan hafnarsvæða stendur Umhverfisstofnun fyrir vinnustofum sem öllum höfnum er boðið að senda fulltrúa á. Stefnt er að því að allar hafnir hafi lokið við gerð viðbragðsáætlana í lok þessa árs.