Lyfjaleifar í vatni

27. nóvember síðastliðinn brá mörgum Íslendingum í brún þegar Umhverfisstofnun birti upplýsingar um að ýmsar tegundir lyfja auk kynhormóna hefðu fundist í íslensku vatni við sýnatökur Umhverfisstofnunar sl. sumar. Dæmi um lyf sem fundust í sjó og ferskvatni voru bólgueyðandi lyf, geðlyf, verkjastillandi lyf og kynhormónið estrógen.

Sýni voru tekin í hafinu við Klettagarða í Reykjavík, í Varmá neðan Hveragerðis og við bakka Mývatns í Reykjahlíð. Niðurstöðurnar sýna svart á hvítu að töluvert magn lyfja berst út í umhverfið með frárennsli. Ein leiðin er í gegnum bústofna, önnur er með útskilnaði frá mannskepnunni og svo gæti verið að Íslendingar hreinlega sturti lyfjaafgöngum sínum niður í klósettin.

Það flokkast undir ábyrga umhverfislega hegðun að skila öllum lyfjaafgöngum til förgunar í apótek landsins. Einnig má velta upp þeirri spurningu hvort við þurfum alltaf að taka lyf ef við kennum okkur meina s.s. vægra verkja? Sumir læknar hafa bent á að stundum geti dugað að fara út að ganga, auka blóðrásina og svelgja inn súrefnið. Fráveitur á Íslandi búa ekki yfir búnaði til að hreinsa lyfjaleifar úr fráveituvatninu. Það er full ástæða til að vera á varðbergi gagnvart bestu lausnum þegar kemur að mengun í umhverfinu hverju sinni.