Í stefnu Umhverfisstofnunar 2018-2022 hefur teymi mengunareftirlits sett sér metnaðarfulla umhverfis- og árangursvísa til að meta gæði eftirlits og eftirfylgni að því markmiði að vernda heilnæmt umhverfi. Hlutfall frávikalausra starfsstöðva gefur mynd af hvort rekstraraðilar beiti betri umhverfisstjórnun til að koma í veg fyrir frávik. Árið 2018 voru 30% starfsstöðva án frávika. Í sumum tilvikum geta komið upp frávik í starfsemi og þá er áhugavert að skoða viðbrögð rekstraraðila við skráðum frávikum. Í 26% tilfella þarf stofnunin að fara í formlega eftirfylgni vegna fráviks og knýja á um fullnægjandi úrbætur.
Umhverfisstofnun hefur sett sér markmið að 85% eftirfylgnimála ljúki innan árs frá skráningu fráviks. Fjórum eftirlitsmálum var lokað á árinu þar sem að meira en ár var frá skráningu fráviksins. Í tveimur eftirfylgnimálum vegna frávika 2018 voru formlegir frestir til úrbóta ekki virtir svo grípa þurfti frekari þvingunarúrræða (áform um dagsektir) sem gefur til kynna að úrbótafrestir séu í flestum tilvikum virtir.