Ekki bara vondar fréttir

Flúorefnasambönd sem framleidd eru sérstaklega til notkunar í margvíslegum iðnaði og vörum eins og í kælikerfum, loftræstingum, varmadælum, slökkvikerfum, háspennurofum, frauðplasti, leysiefnum og í úðabrúsa eru áhrifaríkar gróðurhúsalofttegundir. Þau losna með tímanum út í andrúmsloftið við framleiðslu, notkun og förgun og eru talin valda u.þ.b. 1-3% af losun allra gróðurhúsalofttegunda reiknað sem ígildi CO2. Innflutningur kælimiðla sem teljast til flúroraðra gróðurhúsalofttegunda eða það sem í daglegu tali er kallað F-gös hefur alla tíð verið sveiflukenndur. Árið 2016 var lítið flutt inn en það ár hóf Umhverfisstofnun hert eftirlit með innflutningi miðlanna. Kvótasetning efnana tók gildi um síðustu áramót og áreiðanleg spá um innflutning komandi ára er því möguleg. Á næstum árum verður skoðað nánar hvernig samsetning innfluttra miðla þróast með tilliti til hnatthlýnunarmáttar miðlanna.

Skipuleg niðurfærsla á notkun vetnisflúorkolefna er hafin hér á landi en efnin eru mörg hver gríðarlega virkar gróðurhúsalofttegundir. Þeir miðlar sem mest hefur verið flutt inn af undanfarin ár eru t.a.m. um 4000 sinnum öflugri í þessu tilliti en koldíoxíð. Áætlað er að um 10% af losun frá iðnaðarferlum hér á landi og þar með 4% af heildarlosun Íslands megi rekja til þessara efna. Það felast því umtalsverð tækifæri til að draga úr losun með takmörkun á notkun þessara efna.