Sjálfbærni er leiðarljós við veiðistjórnun. Stundum heyrist að veiðar á hreindýrum séu villimennska sem eigi að láta af. Umhverfisstofnun telur hins vegar að markviss veiðistjórnun sé nauðsynleg og að það myndi valda hreindýrunum sjálfum og jafnvægi náttúrunnar miklum skaða ef engar veiðar væru leyfðar á hreindýrum hér á landi. Þá yrði of mikið af hreindýrum, þau hefðu ekki nóg að bíta og brenna og áhrifin á landið og búskap yrðu óheppileg.
Veiðikvóti hreindýra er ár hvert ákveðinn af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu en að tillögu Umhverfisstofnunar. Veiðikvótinn er ákvarðaður með það í huga að stýra stærð stofnsins og viðhalda ákjósanlegu kynjahlutfalli í stofninum. Það er mikilvægt að árlegar veiðar séu sem næst útgefnum kvóta. Umhverfisstofnun sér um sölu hreindýraveiðileyfa og fylgist með framgangi veiða á veiðitíma. Mikil vinna liggur að baki til að ná þeim árangri að útgefinn kvótinn náist að mestu ár hvert. Oft tekst vel til en orsakir þess að sjaldan tekst að veiða alveg allan kvótann geta verið veðurfarslegar.