Veiðimenn í útrýmingarhættu?

Menning landsmanna tekur sífelldum breytingum. Hér í eina tíð gat skipt sköpum fyrir lífsviðurværið að ganga upp á heiði með byssu og skjóta í matinn. Nú eru breyttir tímar og fer jafnvel að verða tímabært að spyrja þeirrar spurningar hvort veiðimenn Íslands lendi í útrýmingarhættu ef svo fer sem horfir?

Umhverfisstofnun hefur með veiðimál að gera og ef tölur Umhverfisstofnunar eru rýndar um samsetningu veiðimanna sést að nú eru skráðir um 25 þúsund veiðimenn sem veiðikorthafar, árlega fá um 11-12 þúsund þeirra veiðikort. Á hverju ári fara um fimmhundruð verðandi (nýir) veiðmenn í gegnum veiðikortanámskeið Umhverfisstofnunar. Ef aldursdreifing þeirra sem taka kort ár hvert er skoðuð má sjá að meðalaldur veiðimanna hefur hækkað jafnt og þétt síðan veiðikortakerfinu var komið á árið 1995. Það ár tóku 11.564 veiðmenn veiðikort og meðalaldur var 40,7 ár. Árið 2018 tóku jafnmargir veiðikort en meðalaldur þeirra hafði hækkað um tæp sjö ár, var kominn í 47,5.

Af þessu má ráða að nýliðun veiðimanna haldist ekki í takt við fjölgun landsmanna sem staðfestist þegar mannfjöldatölur eru skoðaðar. Ef hlutfall landsmanna, 20 ára og eldri á þessu árabili er rýnt sérstaklega, þar sem aldurstakmark fyrir skotvopnaleyfi er 20 ár, má líka sjá að hlutfallslega færri landsmenn taka nú veiðikort en 1995. Þá voru 6,4% landsmanna með veiðikort en hlutfallið fór niður í 4,5% árið 2018.