Einn liður í að efla grænan lífstíl hjá almenningi er að kanna þekkingu fólks á áreiðanlegum umhverfismerkjum. Starfsfólk Umhverfisstofnunar getur vottað þá ánægjulegu staðreynd að þekking neytenda á umhverfismerkjum hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum. Svanurinn lagði mikla áherslu á markaðsstarf á árinu 2018 og hefur verið ánægjulegt að sjá að átakið skilar sér í upplýstari neytendum.
Önnur vísbending um árangur er fjöldi nýrra umsókna um Svaninn (sjá mynd). Niðurstöður segja að mjög stöðugur áhugi sé á Svaninum sem áreiðanlegu umhverfismerki, enda er reynsla okkar sú að fyrirtæki sem sæki um Svaninn séu staðráðin í að gera eigin rekstur eins umhverfisvænan og völ er á. Segja má að svanurinn hafi verið í stöðugri sókn síðan Umhverfisstofnun setti fjármagn í verkefnið fyrir 10 árum. Svansvottun er því mikilvægur liður í sjálfbærari framtíð og stefna Umhverfisstofnunar er að bæta við fimm nýjum leyfishöfum Svansmerkisins árlega hér á landi. Árið 2018 var gjöfult og skemmtilegt, tvö sterk framleiðslufyrirtæki bættust í Svansfjölskylduna, Tandur og Málning. Starfsmenn Svansins hafa fundið mikinn meðbyr og áhuga frá atvinnulífinu, enda er umhverfisvottun hagkvæm og samfélagslega ábyrg leið til að skapa sér markaðsforskot.