Mikil gagnvirkni er milli margra starfsmanna Umhverfisstofnunar og hins almenna Íslendings. Gáttir eru opnar á heimasíðu stofnunarinnar, ust.is fyrir ýmsar fyrirspurnir frá almenningi. Fjöldi fólks nýtir sér þá þjónustu enda leitast starfsfólk Umhverfisstofnunar við að svara erindum skjótt og vel.
Þá má segja að upplýsingabylting hafi orðið milli almennings og stofnunarinnar með facebook-síðu Umhverfisstofnunar sem nýtur mjög vaxandi vinsælda. Árið 2018 komu mest lesnu póstar Umhverfisstofnunar fyrir sjónir allt að 100.000 Íslendinga. Hefur vegur þessarar miðlunar vaxið markvisst.
Dæmi um skjótvirkni miðilsins er ef stofnunin afræður að loka viðkvæmu svæði vegna vatnavaxta og umferðar. Þá birtum við á síðunni skilaboð á ensku og íslensku sem mikill fjöldi erlendra gesta nýtir sér, sem eykur möguleika á verndun fallega landsins okkar. Við minnum líka á að almenningur getur sent stofnuninni einkaskilaboð í gegnum facebook-síðu okkar.