Hin ósýnilega hönd

Hér að ofan var lítillega fjallað um gagnvirkni og sýnileika þeirra starfsmanna okkar sem standa í eldlínunni t.d. í samskiptum við fjölmiðla. En að baki sýnileika þjónustu, hvort sem um ræðir upplýsingar til almennings eða sérhæfð vísindastörf, búa oft mörg ósýnileg handtök og ákvarðanir.

Ímyndum okkur starfsmann í loftslagsteymi Umhverfisstofnunar. Hann er boðaður með örskömmum fyrirvara á tímamótafund hjá Umhverfisstofnun Evrópu vegna mála sem varða Ísland mjög. Sérfræðingurinn þarf að búa sig vel undir fundinn þótt hann hafi ekki mikinn tíma, hann þarf líka að semja við fjölskylduna vegna hins óvænta ferðalags, láta bóka gistingu og undirbúa alls konar hluti. Þá er gott að geta leitað til stoðþjónustu Umhverfisstofnunar sem er reiðubúin til að aðstoða hann með afbragðsgóðum árangri. Starfsmaðurinn nær fundinum, hann kemur heim, miðlar mikilvægum upplýsingum til almennings og stjórnvalda og lífið heldur áfram.

Ef borin er saman tölfræði ársins 2017 og 2018 um ánægju starfsfólks kemur á daginn að UST-arar eru mjög ánægðir með eigin stoðþjónustu og jókst ánægjan í langflestum tilvikum milli ára. Sú stefna hefur nú verið tekin innan Umhverfisstofnunar að ánægja verði í öllum flokkum innanhúss einkunnin 4 eða hærri (af fimm mögulegum).