Samkvæmt ársskýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu um loftgæði frá árinu 2019 má sjá að Ísland er með lægsta ársmeðaltalsstyrk svifryks af Evrópulöndum (sjá mynd). Þegar köfnunarefnisdíoxíð er skoðað, þá er landið í öðru sæti á eftir Eistlandi. Þetta er mjög góður árangur en alltaf má gott bæta. Þannig má nefna að þó að mikil loftgæði séu á Íslandi ef horft er til lengri tíma, þá gerist það ítrekað að skammtímastyrkur svifryks og köfnunarefnisdíoxíðs hækkar á Íslandi og verður á pari við styrk þessara efna í stórborgum Evrópu.
Til eru íslensk heilsuverndarmörk fyrir ársmeðaltal svifryks (PM10), köfnunarefnisdíoxíð (NO2), kolmónoxíð (CO) og gróðurverndarmörk fyrir brennisteinsdíoxíð (SO2), en Umhverfisstofnun mælir styrk þessara efna auk svifryks á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Ef styrkur loftmengandi efna fer yfir skilgreind mörk efnisins er mikilvægt að grípa til aðgerða á viðkomandi svæði og er framkvæmd þeirra aðgerða í höndum sveitarfélaganna. Sem dæmi fór sólarhringsstyrkur köfnunarefnisdíoxíðs 13 sinnum yfir heilsuverndarmörk fyrir sólarhringsmeðaltal á Grensásvegi en einungis er leyfilegt að fara 7 sinnum yfir mörkin ár hvert.