Umhverfisskýrsla

Umhverfisstofnun leggur áherslu á að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi stofnunarinnar í lágmarki. Stefnt er að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda en jafnframt að minnkuðu umhverfisspori í víðara samhengi.

Loftslagsbókhald

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi stofnunarinnar stóð nokkurn veginn í stað á milli ára. Langstærstur hluti losunar frá starfi Umhverfisstofnunar er til kominn vegna samgangna. Stöðugt er unnið að betrumbótum á mati á losun. Í Grænu bókhaldi fyrir 2019 voru notaðir uppfærðir losunarstuðlar og jafnframt var notast við tölur um eldsneytisnotkun í stað ekinna kílómetra í þeim tilfellum sem slíkar tölur lágu fyrir. Þetta leiddi í ljós að akstur á stærri hlut í losun stofnunarinnar en áður var talið og hlutur hans fer auk þess vaxandi.

Losun vegna aksturs eykst

Losun vegna aksturs hefur vaxið ár frá ári síðan 2015. Þetta má rekja til aukinna umsvifa í landvörslu. Til að horfa til þess jákvæða er ljóst að í þessu felst tækifæri til að draga úr losun með orkuskiptum í akstri en stór hluti þeirra bíla sem notaðir hafa verið við landvörslu hafa gengið fyrir jarðefnaeldsneyti.

Losun vegna flugs minnkar

Hinn stóri þátturinn í losun frá samgöngum er flug. Innanlandsflug stofnunarinnar jókst á milli ára en á sama tíma varð verulegur samdráttur í millilandaflugi. Á heildina dró því úr losun vegna flugs á milli ára. Til að gefa sem réttasta mynd af losun í hlutfalli við verkefnin er notast við ársverk sem eru summa fastra stöðugilda við stofnunina og ársverka í tímabundinni landvörslu. Undanfarin ár hefur vinna í tímabundinni landvörslu yfir sumartímann farið vaxandi sem hefur meðal annars áhrif á akstur á vegum stofnunarinnar. Ef horft er til losunar á ársverk hefur dregið úr losun á hverju ári síðan 2016. Til að viðhalda þessari jákvæðu þróun eru síauknar kröfur gerðar til vægis funda sem sóttir eru erlendis og aukin áhersla lögð á að notast sé við fjarfundi eins og kostur er.

Samgöngusamningar

Í viðleitni til að hvetja starfsfólk til að nýta sér umhverfisvæna samgöngumáta býður stofnunin upp á samgöngusamninga og fer þeim fjölgandi sem nýta sér þá hvatningu. Tvær gerðir samninga eru í boði varðandi samgöngur til og frá vinnu – fyrir þá sem nota strætó og fyrir þá sem hjóla eða ganga. Einnig er hægt að gera slíkan samning sem gildir aðeins yfir sumartímann. Hlutfall starfsfólks með einhvern þessara samninga var 56% árið 2019.

Úrgangur

Heildarmagn úrgangs var 13% minna árið 2019 en 2018. Úrgangsmyndun var þó mikil bæði þessi ár vegna tiltektar í skrifstofum og geymslum. Árið 2018 var í fyrsta skipti gert mat á úrgangsmyndun hjá öllum starfsstöðvum en úrgangsmælingar höfðu fram að því aðeins náð til höfuðstöðvanna á Suðurlandsbraut – í meðfylgjandi grafi er leiðrétt fyrir þessari breytingu í verklagi.

Þurfum að gera betur í að flokka

Endurvinnsluhlutfall er hátt hjá stofnuninni en árið 2019 var það þó það lægsta sem verið hefur síðan 2015, eða 85% samanborið við 90% árið á undan og 94% árið 2015. Líklegt er að þetta lækkaða endurvinnsluhlutfall megi rekja til þess umróts sem varð við breytingar á starfsaðstöðu í höfuðstöðvum. Hvað sem öðru líður er ljóst að gera þarf átak í flokkun úrgangs á árinu 2020.

Draga þarf úr prentun

Pappírsnotkun vegna útprentana jókst á milli ára. Á árinu 2020 verður gerð greining á prentun hjá stofnuninni til að kanna hvort breyta megi verklagi þannig að dregið verði úr prentun.

Endurmat á Grænum skrefum

Umhverfisstofnun lauk innleiðingu Grænna skrefa á öllum starfsstöðvum árið 2016. Frá þeim tíma hafa kröfur verkefnisins verið hertar svo tekin var ákvörðun um að endurmeta frammistöðu stofnunarinnar í verkefninu. Mannvit verkfræðistofa var fengin sem óháður úttektaraðili og var niðurstaðan sú að Umhverfisstofnun uppfyllir öll skref Grænna skrefa á öllum starfstöðvum sínum.

Umhverfisfræðsla

Hjá Umhverfisstofnun er lögð mikil áhersla á fræðslu og hvatningu til starfsfólks þegar kemur að umhverfismálum. Árið 2019 var t.a.m settur upp skiptimarkaður í tilefni Evrópsku nýtnivikunnar, haldin teymakeppni um frumlegasta ferðamátann í Samgönguviku, staðið fyrir ruslatínslu í tengslum við Hreinsum Reykjavík saman og Hjólað í vinnuna tekið með trompi. Þá fengu starfsmenn flokkunarfræðslu frá Terra, kynningu á niðurstöðum Græns bókhalds og starfsfólki bauðst kennsla á rafbíl stofnunarinnar, notkun hraðhleðslustöðva og annað sem við kemur notkun rafbíla.


Skiptimarkaður Umhverfisstofnunar í Evrópsku nýtnivikunni.

Rammgöldrótt teymi hafs og vatns mætti fljúgandi í vinnuna. Því miður er ennþá skortur á áreiðanlegum losunarstuðlum fyrir floginn kílómeter á nornakústi.

Teymi loftslags og loftgæða benti á að minnst losun fylgdi því að vinna heima.

Teymi friðlýsinga og áætlana bar sigur úr býtum með flesta ferðamáta í einu teymi.