Lundinn fær friðland

Þann 3. maí 2019 var Akurey á Kollafirði, norðaustan við Seltjarnarnes, friðlýst. Akurey er 6,6 hektarar að flatarmáli en friðlýsta svæðið er alls 207 hektarar. Friðlýsingin nær til eyjarinnar og hafsvæðisins umhverfis hana, hafsbotns, lífríkis og vatnsbols. Í eyjunni er að finna alþjóðlega mikilvæga sjófuglabyggð, en þar verpa m.a. lundi, sílamávur, æðarfugl og teista, auk þess sem Akurey er mikilvæg vetrarstöð fyrir skarfa.

Friðlýsing Akureyjar er hluti af átaki í friðlýsingum sem umhverfis- og auðlindaráðherra kynnti í ríkisstjórn þann 8. júní 2018. Átakið er í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem sérstaklega er kveðið á um friðlýsingu svæða í verndarflokki rammaáætlunar. Friðlýsing virkjunarkosta í verndarflokki rammaáætlunar er komin á gott skrið, sem dæmi var friðlýsing Jökulsár á Fjöllum undirrituð 2019. Friðlýsing svæða í verndarflokki rammaáætlunar nær til orkuvinnslu á svæðunum en ekki annarra atriða.

Friðlýst svæði eru 115 talsins og er flatarmál þeirra samtals 26.093 km2, sem er 22,6% af heildar flatarmáli Íslands eða tæplega fjórðungur. Ísland hefur því náð, og gott betur, hluta af markmiði 11 í Samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni þar sem talað er um að 17% lands skuli vera friðlýst fyrir árið 2020. Hlutfall friðlýstra svæða af heildar flatarmáli lands er hæst á Íslandi af öllum Norðurlöndunum.