Tímamótaáætlun á Hornströndum

Ein af þeim stjórnunar- og verndaráætlunum sem gefnar voru út árið 2019 var stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið á Hornströndum. Leiðarljós fyrir friðlandið á Hornströndum er að vernda víðfeðmt svæði með einstakri náttúru og dýralífi þar sem kyrrð ríkir og innviðir eru ekki áberandi. Settar voru takmarkanir á stærðir hópa sem ferðast gangandi um friðlýsta svæðið, landtaka skipa með 51 farþega eða fleiri er óheimil, reglur um lendingar mannaðra loftfara og flug ómannaðra loftfara. Reglurnar eru allar settar með það að markmiði að styrkja og viðhalda verndargildi svæðisins og standa vörð um óbyggða- og víðernaupplifun gesta sem heimsækja svæðið.

Árið 2019 voru gefnar út sjö stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir friðlýst svæði. Aukin áhersla hefur verið lögð á verkefnið og eru nú til áætlanir fyrir 28 af þeim 112 friðlýstu svæðum sem eru í umsjón Umhverfisstofnunar.

Áætlanirnar eru afar mikilvægt verkfæri við markmiðasetningu og mótun framtíðarsýnar fyrir friðlýst svæði til næstu tíu ára. Þær eru unnar í samstarfi við sveitarfélög og landeigendur auk þess að lögð er rík áhersla á samráð við aðra hagsmunaaðila. Með virku samráði er mótuð sameiginleg framtíðarsýn hagsmunaaðila sem skilar sér í betri afurð og meiri sátt um málefni friðlýstu svæðanna ásamt skilvirkari verndun.