Minkur – ágeng framandi tegund

Minkur var fluttur til landsins af mönnum til loðdýraræktar á sínum tíma. Fljótlega slapp minkurinn úr búrum og varð ekki lengi að aðlagast íslenskri náttúru og ná mikilli útbreiðslu. Minkurinn er skilgreindur sem ágeng framandi tegund og hefur hann sett mark sitt á fuglalíf og varphætti fugla hér á landi.

Samkvæmt núgildandi lögum ákveður ráðherra hvar minkaveiðar eru nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir tjón, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Sveitarstjórnum er skylt að ráða kunnáttumann til minkaveiða á þessum tilteknu svæðum. Sveitarfélög skila árlega skýrslu um veiðarnar og fá endurgreitt frá ríkinu allt að helming útlagðs kostnaðar við þær.

Veiðar á mink drógust mikið saman á árunum 2004-2015 en hafa verið að aukast lítillega aftur. Umhverfisstofnun telur mikilvægt að lögð verði meiri áhersla á veiðarnar á komandi árum þar sem um ágenga framandi tegund er að ræða. Þeim sem stunda minkaveiðar fækkar einnig og er það eitthvað sem vert er að skoða frekar þar sem ekki er krafist veiðikorts til veiða á mink.