Ástand vatns á Íslandi

Umsvif manna geta valdið álagi á ferskvatn og strandsjó, ýmist með losun efna eða vegna vatnsformfræðilegra breytinga. Álag vegna losunar efna út í umhverfið getur verið í gegnum fráveitur og ofanvatn frá þéttbýli, frá iðnaði, fiskeldi eða áburðarnotkun. Álag á vatnsformfræði er t.d. breytingar á árfarvegi, stíflur, vegir, hafnir út í sjó, landfyllingar eða efnistaka.

Fyrsta álagsgreiningin var unnin af Umhverfisstofnun árið 2013 en árið 2019 var farið í viðbætur á álagsgreiningu m.t.t. fráveitu og fiskeldis. Álagsgreininguna má sjá í Stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði Íslands (2013). Vatnshlot voru flokkuð í þrjá flokka eftir því álagi sem var metið að þau væru undir; ekki í hættu, óvissu og í hættu. Tvö vatnshlot voru metin í hættu á að ná ekki umhverfismarkmiðum sínum. Þau vatnshlot eru stöðuvatnshlotið Tjörnin í Reykjavík og grunnvatnshlotið Rosmhvalanes 2.

Markmiðið er að öll vatnshlot á Íslandi séu í mjög góðu eða góðu ástandi og má ástand þeirra ekki versna þannig að þau falli um flokk. Flokkunarkerfið sem notað er til að flokka yfirborðsvatn hefur fimm ástandsflokka þ.e. mjög gott ástand/náttúrulegt, gott, ekki viðunandi, slakt og lélegt ástand. Efnafræðilegt ástand vatnshlota gerir hinsvegar ráð fyrir tveimur flokkum þ.e gott og næst ekki. Í grunnvatni eru tveir flokkar sem taka til magnstöðu grunnvatns og eru þeir náð og ekki náð.