Hreinlætisvörur 42% rusls á ströndum

Til að fylgjast með hvað berst af rusli á strendur Íslands hefur Umhverfisstofnun valið ákveðin strandsvæði til reglulegrar vöktunar. Með vöktuninni uppfyllir Ísland hluta af aðgerðaáætlun OSPAR um að draga úr skaðsemi úrgangs í hafi og á ströndum. Á myndinni hér að neðan má líta á sex afmörkuð strandsvæði sem eru vöktuð á Íslandi, þar sem allt rusl er tínt og flokkað samkvæmt staðlaðri aðferðafræði. Síðan 2016 þegar verkefnið hófst höfum við því getað fylgst með þróun á magni og samsetningu rusls á þessum ströndum.

Á árunum 2016-2019 var plast stærsti hlutinn af öllu því rusli sem fannst á ströndunum (graf 1). Niðurstöður frá Bakkavík á Seltjarnarnesi skera sig úr vegna nálægðar við þéttbýli og skólpdælustöðvar. Þar voru hreinlætisvörur að meðaltali 42% af öllu því rusli sem fannst, aðallega vegna blautklúta (graf 2). Blautklútana má rekja til þess að íbúar henda þeim í klósettið og hreinsibúnaður nær ekki að sía þá út.

Ísland þarf að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir plastmengun í hafi. Það er t.d. gert með betri flokkun úrgangs og endurvinnslu og með því að draga úr notkun einnota plasts. Hreinsun á skólpi frá þéttbýlum þarf einnig að bæta og þar með koma í veg fyrir að plast berist út á haf með skólpvatninu.


Vöktuð strandsvæði