Nýjar kröfur um að brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti megi ekki vera hærra en 0,5% tóku gildi þann 1. janúar 2020. Strangari kröfur gilda um eldsneyti sem notað er innan landhelgi Íslands og innsævis og skal brennisteinsinnihald þess að hámarki vera 0,1%. Þessar kröfur eiga þó ekki við ef um borð eru notaðar viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun brennisteins.
Skipaeldsneyti á markaði fellur í þrjá gæðaflokka m.t.t. brennisteinsinnihalds, sem eru skipagasolía sem inniheldur minna en 0,1% brennistein, skipadísilolía sem inniheldur jafnan um 0,2% og svartolía með brennisteinsinnihaldi á bilinu 1-1,5%. Ljóst er að svartolía uppfyllir hvorugt framangreindra skilyrða um brennisteinsinnihald og skipadísilolía aðeins það fyrrnefnda (0,5%) og því geta skip hvergi brennt svartolíu lengur og ekki skipadísilolíu innan landhelgi Íslands og innsævis nema um borð sé beitt viðurkenndum aðferðum til að draga úr losun.
Mikilvægt er að framboð skipaeldsneytis taki mið af kröfunum um að draga úr brennisteinsinnihaldi og Umhverfisstofnun fylgist með þróuninni með því að rýna eldsneytisskýrslur sem olíufélögin skila stofnuninni á hverju ári. Samkvæmt þeim hefur innflutningur á skipagasolíu, sem er með lágt brennisteinsinnihald, aukist hægt og sígandi á undanförnum árum en að sama skapi dregið úr magni eldsneytisgerða með hærra brennsteinsinnihaldi.