Frávikum fækkar milli ára

Markmið mengunareftirlits er að taka út hversu vel rekstraraðilar fylgja þeim reglum sem þeim hafa verið settar og að hvetja til góðrar umhverfisstjórnunar til að lágmarka neikvæð áhrif á umhverfið af starfseminni. Það telst frávik ef starfsemi er ekki í samræmi við kröfur sem settar eru fram í starfsleyfi, lögum eða reglugerðum og krafist er úrbóta innan ákveðins tímaramma. Um 29% rekstraraðila sem fengu vettvangsheimsókn árið 2019 voru án frávika.

Mikilvægt er að fyrirtæki geri það sem í þeirra valdi stendur til að fyrirbyggja frávik en í sumum tilvikum koma þau upp án fyrirvara og því er einnig brýnt að skoða hversu vel rekstraraðilar bregðast við og bæta úr frávikum. Bregðist rekstraraðili ekki við frávikum fer málið í formlega eftirfylgni þar sem möguleiki er á að beita þvingunarúrræðum til að knýja á um úrbætur. Af þeim 238 frávikum sem skráð voru í eftirliti 2019 þurfti að beita þvingunarúrræðum vegna 51 fráviks, sem samsvarar um 21% frávika, til samanburðar við 26% frávika skráð í eftirliti 2018.