Mikill fjöldi efnavara kallar á forgangsröðun

Efnalögum er ætlað að tryggja að meðferð efnavara valdi hvorki tjóni á heilsu manna og dýra né í umhverfi, meðal annars með því að stuðla að minni notkun hættulegra efna og að tryggja upplýsingaflæði um hættur af völdum efnavara. Í lögunum er Umhverfisstofnun falin yfirumsjón með efnaeftirliti á öllu landinu með samræmdum hætti og hefur stofnunin sinnt því hlutverki frá árinu 2014. Fjöldi efnavara á markaði er gríðarlegur og því ekki hægt að skoða nema brotabrot af þeim í reglulegu eftirliti þannig að nauðsynlegt er að beita áhættumati við forgangsröðun verkefna á eftirlitsáætlun til þess að stýra umfanginu.

Í efnaeftirliti Umhverfisstofnunar árið 2015 voru skoðaðar 883 vörur og varð þessi fjöldi til þess að úrvinnsla gagna dróst langt fram á árið 2016, þannig að of langur tími leið frá því að farið var í eftirlitsferðir og þar til að eftirlitsþegar fengu niðurstöðurnar í hendur. Einnig varð þetta til þess að árið eftir var ekki hægt að ráðast í öll verkefni sem voru á eftirlitsáætlun þess árs. Til þess að geta hagað efnaeftirliti með viðunandi hætti og tryggt nægilega yfirsýn í málaflokknum hafa verið sett fram markmið um hæfilegan fjölda eftirlitsverkefna sem ráðist er í á hverju ári og hve margar vörur eru teknar til skoðunar í þeim.