Vísbendingar um ósjálfbærar veiðar á grágæs

Grágæs (Anser anser) er mest veidda gæsategundin á Íslandi. Meðalveiði hefur verið 42.000 fuglar á síðustu árum, en auk þess hafa Bretar skotið ca. 20.000 fugla á ári. Það verður að teljast hátt hlutfall úr stofni sem samkvæmt talningum hefur verið 120 – 185 þúsund fuglar. Skýringin á því hvers vegna stofninn hefur þolað þessa miklu veiði gæti legið í vanmati á stofnstærð og/eða ofmati á veiðitölum.

Niðurstöður nóvember talninga á Bretlandi síðustu þrjú ár hafa aukið áhyggjur manna á því að veiðar á grágæs séu ekki lengur sjálfbærar. Þess vegna er mikilvægt að vísindamenn, stofnanir, veiðimenn og aðrir hagsmunaaðilar taki nú höndum saman um að tryggja heilbrigða stofnstærð en á sama tíma reyna að lágmarka tjón sem fuglarnir valda í landbúnaði. Umhverfisstofnun hefur hafið undirbúning að gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir alla veiðistofna hérlendis, þar með talið fyrir grágæsina.


Þó grágæsastofninn virðist hafa verið í niðursveiflu á síðustu árum, þá hefur heiðagæsastofninn vaxið nánast stöðugt síðustu áratugi. Íslendingar veiða að meðaltali á bilinu 2 – 6% úr heiðagæsastofninum ár hvert en atferli hennar gerir það að verkum að hún er ekki eins auðsótt bráð og grágæsin. Ástæða er til að benda veiðimönnum á að heiðagæsin er vannýttur veiðistofn sem þolir aukna sókn en á sama tíma er æskilegt að draga úr veiðum á grágæs.