Umhverfisstofnun er með skýra stefnu um gagnsæi og markvissa miðlun upplýsinga og starfsmenn hennar leggja sig fram um að framfylgja þeirri stefnu. Miðlun um störf stofnunarinnar fer fram með margvíslegum hætti, s.s. í gegnum fjölmiðla, þátttöku í ráðstefnum og fundum, samvinnu við samtök, samráðsfundum við hagaðila, framleiðslu námsefnis og kynningum ýmis konar.
Málefni Umhverfisstofnunar eiga brýnt erindi við almenning, stjórnvöld og aðra hagaðila. Má þar nefna loftslagsmál og loftgæði, málefni sem snúa að grænu samfélagi, efnamál, náttúruvernd, friðlýsingar, verndun og veiðar villtra dýra, málefni hafs og vatns og fleiri mikilvæg umhverfismál.
Samkvæmt gögnum frá Creditinfo stóð umfjöllun fjölmiðla um Umhverfisstofnun nánast í stað milli áranna 2018 og 2019. Árið 2018 voru alls birtar 1.602 fréttir en árið 2019 voru þær 1.610.
Langflestar fréttir birtust í netmiðlum, eða tæp 1.000 hvort ár. Að auki voru birtar rúmlega 300 prentaðar fréttir bæði árin og tæplega 200 útvarps- og sjónvarpsfréttir.