API Umhverfisstofnunar og meira gis

Umhverfisstofnun leggur ríka áherslu á að gera gögn þannig úr garði að þau séu aðgengileg fyrir hagaðila og almenning, hvort heldur sem er á auðlesnu máli eða fyrir vélrænan lestur (API). Aðgengið nær bæði til skila og lesturs gagna. Árið 2019 fjölgaði þjónustuleiðum stofnunarinnar. Einkum jókst aðgengi að umsóknum, t.d. um ýmis konar leyfi, í þjónustugátt. Jafnframt var þjónusta við að hala niður gögnum aukin.

Tvö niðurhalslén eru virk: gis.ust.is geymir gögn um landupplýsingar (GIS) og api.ust.is, sem var tekið í notkun í árslok 2019, er ætlað fyrir fagaðila og kunnáttufólk til að nýta sér vefþjónustur til vélræns lesturs gagna. Fyrstu gagnasettin sem eru þar í boði eru nýjustu loftgæðagögn. Þau voru t.d. nýtt af háskólafólki um áramótin 2019/2020 til að sjá áhrif á loftmengun frá flugeldum og eru sjálfkrafa lesin inn í alþjóðlega loftgæðagagnagrunninn OpenAQ.