Úttekt á ástandi áfangastaða innan friðlýstra svæða var yfirgripsmeiri en nokkru sinni fyrr, enda hafa nú bæði Þjóðgarðurinn á Þingvöllum og Vatnajökulsþjóðgarður tekið upp ástandsmatsverkfærið. Fjöldi áfangastaða sem voru metnir árið 2020 voru 146 í stað 106 árið 2019. Ánægjulegustu tíðindi matsins eru þau að 41% metinna áfangastaða teljast til grænna áfangastaða en það eru áfangastaðir sem standast vel það álag sem á þá er lagt. Þetta er töluverð aukning frá fyrra ári þegar 32% áfangastaða náðu þessum áfanga. Helstu skýringar á þessu góða gengi er aukin innviðauppbygging og í einhverjum tilfellum minna álag á náttúru vegna fækkunar ferðamanna.
Ástandsmatið beinir sjónum að áfangastöðum sem þarfnast frekari innviðauppbyggingar eða annarar íhlutunar. Rauðir staðir undanfarinna ára (Rauðifoss og Dettifoss) hafa báðir unnið sig upp af listanum en í ár fáum við inn þrjá nýja áfangastaði sem þarfnast taflarlausrar athygli. Það eru Stútur og Suðurnámur innan friðlandsins að Fjallabaki og Námuvegur innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Breytingar urðu jafnframt á appelsínugula listanum, sem er listi yfir áfangastaði sem eiga á hættu að tapa verndargildi sínu. Fækkun varð á listanum en nýir áfangastaðir sem komu þar inn eiga það sameiginlegt að nú var verið að meta þá í fyrsta skipti.