Umhverfisskýrsla

Umhverfisstofnun leggur áherslu á að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi stofnunarinnar í lágmarki. Stefnt er að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda en jafnframt að minnkuðu umhverfisspori í víðara samhengi.

Árið 2020 var mjög sérstakt á margan hátt vegna heimsfaraldurs. Starfsfólk stofnunarinnar starfaði að stórum hluta í fjarvinnu að heiman og fundir færðust að mestu leyti yfir á Teams. Samkomutakmarkanir og sóttvarnir höfðu einnig mikil áhrif á ferðir starfsmanna og flugferðum fækkaði umtalsvert. Á árinu voru tekin mikilvæg skref í stafrænni stjórnsýslu, erindi sem komu rafrænt svarað rafrænt og rafrænar undirskriftir voru innleiddar til að halda uppi óskertri starfsemi og sporna gegn pappírssóun.

Loftslagsbókhald

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi stofnunarinnar minnkaði þó nokkuð á milli ára. Langstærsti hluti losunar frá starfi Umhverfisstofnunar er eins og áður frá samgöngum. Mikið var um að skipulagðar ferðir voru felldar niður og að starfsmenn ferðuðust á milli landshluta á bíl sem þeir hefðu undir venjulegum kringumstæðum farið með flugi. Losun frá akstri er samt sem áður minni en á árinu 2019.

Stöðugt er unnið að umbótum á mati á losun. Hafa ber í huga að losun frá akstri var reiknuð með sama móti í ár og í fyrra, þ.e. út frá magni eldsneytis í stað vegalengda og eru því niðurstöður losunar frá akstri mun nákvæmari 2019 og 2020 en frá árunum þar á undan.

Losun vegna aksturs minnkar

osun vegna aksturs hefur vaxið ár frá ári síðan 2015 og má rekja það til aukinna umsvifa í landvörslu. Umsvif stofnunarinnar hvað varðar mengunareftirlit hafa einnig aukist, þ.e. eftirlitsþegum hefur fjölgað og hafa þar starfsleyfishafar eins og þauleldisbú og fiskeldi bæst við og því eftirlitsferðum fjölgað sem því nemur. Til að horfa til þess jákvæða er ljóst að í þessu felst tækifæri til að draga úr losun með orkuskiptum í akstri en stór hluti þeirra bíla sem notaðir hafa verið við landvörslu hafa gengið fyrir jarðefnaeldsneyti. Hins vegar voru í þrír rafmagnsbílar í landvörslu árið 2020 í leigu og verða þeir fjórir árið 2021.

Losun vegna flugs minnkar

Hinn stóri þátturinn í losun frá samgöngum er flug. Innanlandsflug stofnunarinnar minnkaði á milli ára og á sama tíma varð verulegur samdráttur í millilandaflugi. Í heildina dró því úr losun vegna flugs á milli ára. Ef horft er til losunar á stöðugildi hefur dregið úr losun á hverju ári síðan 2016. Til að viðhalda þessari jákvæðu þróun eru síauknar kröfur gerðar til vægis funda sem sóttir eru erlendis og aukin áhersla lögð á að notast sé við fjarfundi eins og kostur er.

Samgöngusamningar

Í viðleitni til að hvetja starfsfólk til að nýta sér umhverfisvæna samgöngumáta býður stofnunin upp á samgöngusamninga og fer þeim fjölgandi sem nýta sér þá hvatningu. Hins vegar fækkaði samningum árið 2020 og er líkleg skýring að starfsfólk vann mikið heima hjá sér og sá því kannski síður ástæðu til að gera samning. Tvær gerðir samninga eru í boði varðandi samgöngur til og frá vinnu – fyrir þá sem nota strætó og fyrir þá sem hjóla eða ganga. Einnig er hægt að gera slíkan samning sem gildir aðeins yfir sumartímann. Hlutfall starfsfólks með einhvern þessara samninga var um 50% árið 2020.

Úrgangur

Úrgangsmyndun var mikil árin 2018 – 2019 vegna tiltektar í skrifstofum og geymslum. Árið 2020 minnkaði heildarmagn úrgangs milli ára úr 71 kg á stöðugildi niður í 25 kg. Árið 2018 var í fyrsta skipti gert mat á úrgangsmyndun hjá öllum starfsstöðvum en úrgangsmælingar höfðu fram að því aðeins náð til starfsstöðvarinnar í Reykjavík – í meðfylgjandi grafi er leiðrétt fyrir þessari breytingu í verklagi.

Stöndum okkur vel í að flokka

Endurvinnsluhlutfall er hátt hjá stofnuninni og var árið 2020 það hæsta síðan 2015, samanborið við 85% árið á undan. Líklegt er að þetta hækkaða endurvinnsluhlutfall megi rekja til þess átaks sem gert var í flokkun úrgangs með aukinni upplýsingagjöf í gegnum Græn skref og vitund starfsfólks. Mikilvægt er að viðhalda því góða starfi sem var unnið árið 2020 og bæta í árið 2021.

Draga þarf úr prentun

Pappírsnotkun vegna útprentunar minnkaði á milli ára sem er jákvætt en við erum enn að prenta út 4,2 kg af pappír á stöðugildi á árinu 2020 svo að við eigum enn möguleika á að bæta okkur. Á árinu 2021 verður gerð greining á prentun hjá stofnuninni til að kanna hvort breyta megi verklagi þannig að dregið verði úr prentun.

Svansvottaðar endurbætur

Á árinu 2020 fékk skrifstofuhúsnæði Umhverfisstofnunar við Suðurlandsbraut 24 í eigu Reita Svansvottun fyrir endurbætur húsnæðis. Svansvottun húsnæðis Umhverfisstofnunar er merkur áfangi, enda er þetta í fyrsta skipti sem þessi vottun er gefin út fyrir húsnæði á Norðurlöndum. Vottunin er til marks um metnað til að beita sér fyrir umbótum í umhverfismálum þegar kemur að byggingum.

Viðmið Svansins fyrir endurbætur eru umfangsmikil þar sem markmiðið er að lágmarka áhrif framkvæmda á umhverfi og heilsu. Svansvottunin tryggir gæði byggingarinnar meðal annars með betri innivist sem er m.a. náð með ströngum kröfum á efnainnihald byggingavara. Í Svansvottun er einnig lögð áhersla á endurnotkun byggingarefna og að úrgangur fari í endurvinnslufarveg.

Sem dæmi um árangur, sem náðist í framkvæmdunum við Suðurlandsbraut 24 má nefna:

  • Flokkunarhlutfall byggingarúrgangs var 94,4% á framkvæmdatíma
  • Áætlað er að notkun loftræsikerfis með hitaendurvinnslu muni draga úr orkunotkun um 40%
  • Öll málning og sparsl var umhverfisvottað
  • Álrimlar, korkflísar og fleiri byggingarhlutir voru notaðir áfram
  • Veglegt barnaherbergi var sett upp til að bæta aðstöðu starfsmanna
Græn skref

Verkefnið Græn skref byggir að mestu á umhverfisáhrifum af skrifstofustarfsemi. Um óvenjulegt ár var að ræða og starfsfólk var mikið í fjarvinnu. Samt sem áður voru ákveðnir hlutir framkvæmdir, til dæmis voru endurnýjuð skilaboðin um umhverfisvæna hegðun í starfsstöðinni á Suðurlandsbraut, skilaboð sem minna á prentun báðum megin á blöðin, það að nota stigann í stað lyftu, slökkva á ljósum og raftækjum o.s.frv. Einnig var ruslatunna fyrir almennt sorp færð til í matsal til þess að hvetja fólk til að hugsa sig um og draga úr notkun hennar en flokka sorpið sitt frekar. Umhverfisstofnun stóð sig vel í átakinu Hjólað í vinnuna en þátttaka í því er eitt af skilyrðum Grænna skrefa, sjá nánar í kafla um Hjólað í vinnuna. Vegna COVID-19 má segja að margt hafi gengið sjálfkrafa vel í Grænu skrefunum, enda minna um ferðalög í og úr vinnu og á fundi, á meðan annað hefur gengið verr, eins og aukning á notkun á einnota búnaði svo sem vatnsflöskum, grímum, plasthönskum, handþurrkum o.s.frv. Mikilvægt er að taka það jákvæða með sér áfram árið 2021 en draga úr því neikvæða eins og hægt er.

Umhverfisfræðsla

Hjá Umhverfisstofnun er lögð mikil áhersla á fræðslu og hvatningu til starfsfólks þegar kemur að umhverfismálum. Árið 2020 fékk starfsfólk kynningu á umhverfissálfræði og öllum starfsmönnum stóð til boða að fá aðgang að Lifum betur ráðstefnunni. Þá fengu starfsmenn kynningu á niðurstöðum Græns bókhalds og kynningu á rafbílun og orkuskiptum í samgöngum.

Hjólað í vinnuna

Umhverfisstofnun lenti í öðru sæti í sínum flokki í keppninni „Hjólað í vinnuna“ árið 2020. Þátttaka var mjög góð en um 70 starfsmenn voru skráðir þetta árið og fjölmargir af þeim tóku þátt alla keppnisdagana sem voru 14. Guðrún Lilja var valin liðsstjóri keppninnar ásamt tíu öðrum liðsstjórum, en alls voru 344 lið skráð til leiks. Sverrir hjólaði mest af okkur, um 250 km á þessum 14 dögum.


Hjólagarparnir Axel , Guðrún og Sverrir.

Umhverfisvarpið

Umhverfisvarpið var sett á laggirnar árið 2020 en Umhverfisvarpið er reglubundin fræðsla á vegum Umhverfisstofnunar. Fræðslan er send út rafrænt og er opin öllum. Í Umhverfisvarpinu er hinum ýmsu verkefnum stofnunarinnar miðlað af sérfræðingum hennar. Markhópur fræðslunnar getur verið mismunandi eftir viðfangsefnum hverju sinni. Þeir geta verið almenningur, fjölmiðlar, fyrirtæki, aðrar stofnanir, nemendur o.s.frv. Markmið verkefnisins er að stunda markvissa upplýsingagjöf sem er eitt af átta yfirmarkmiðum stofnunarinnar. Einnig er markmiðið að auka þekkingu á verkefnum stofnunarinnar, auka umhverfisvitund í samfélaginu, auka gegnsæi, auka aðgengi að sérfræðingum og halda fjarfundamenningu á lofti. Haldin voru sex fræðsluerindi á árinu 2020 þar sem fjallað var um áherslur og árangur í mengunareftirliti, átak í friðlýsingum, losunarbókhald Íslands, hvað grænþvottur er, umsagnir og störf landvarða.

Störf landvarða, í hverju felast þau? Hákon Ásgeirsson - 11 desember 2020