Ávarp forstjóra

Sigrún Ágústsdóttir - forstjóri

Grænar áherslur hafa náð flugi. Flestar atvinnugreinar skilgreina nú umhverfismál sem lykilþátt í sinni stefnumótun. Hringrásarhagkerfinu vex fiskur um hrygg. Endurvinnslufyrirtækjum og endurvinnsluleiðum er að fjölga, verslunum sem bjóða upp á notaðar vörur fer nú fjölgandi og ekki er annað að sjá en viðskiptin gangi vel.
Kynslóðin sem taka mun við áttar sig vel á þýðingu þess að lengja líftíma vöru og er ekki eins upptekin af því neyslusamfélagi og við sem eldri erum. Hringrásarhagkerfið þarf á nýsköpun að halda og í því liggja atvinnutækifæri. Hið opinbera þarf að bjóða þjónustu sem er lipur og hentug fyrir þessi fyrirtæki. Nýleg þjónustukönnun sem fjármálaráðuneytið stóð fyrir bendir til þess að lítil og meðalstór fyrirtæki séu nokkuð sátt með þjónustu Umhverfisstofnunar. Að hlusta á ábendingar hagsmunaaðila samhliða stafrænni þróun skilar vonandi því að þjónusta stofnunarinnar verði enn aðgengilegri.
Árið 2020 var einstakt í náttúruvernd á Íslandi þar sem mörg ný svæði voru friðlýst þar af hin víðfeðmu Kerlingarfjöll og hinn sögufrægi Geysir. Verulegur ávinningur er af friðlýsingu svæða: skýrara skipulag, gjarnan auknir möguleikar fyrir ferðaþjónustu og auðvitað varðveisla einstakrar náttúru til framtíðar. Að varðveita fjölbreytni náttúrunnar er okkar ábyrgð. Töluverð uppskera hefur því orðið af átaki umhverfis- og auðlindaráðherra í friðlýsingum. Umhverfisstofnun hefur lagt fram ýmsar tillögur á þessu tímabili sem leitt geta til enn meiri árangurs í náttúruvernd til framtíðar. Ástand friðlýstra svæða fer ennfremur batnandi þökk sé markvissri uppbyggingu innviða, skýrum áætlunum og minni umferð. Heimsfaraldurinn hefur dregið úr umferð ferðamanna um tiltekin viðkvæm svæði. Hvað segir það okkur? Jú, það segir okkur að stjórnunar- og verndaráætlanir á friðlýstum svæðum eru algjörlega nauðsynlegar svo það sé ekki tilviljunum háð hvaða svæði fá umferð og annað álag sem þau e.t.v. ekki þola og hvaða svæði fá minna álag en sem þola kannski meira. Við verðum að greina sterka og veika bletti, tryggja landvörslu og markvissa umsjón til framtíðar.
Loksins virðist losun gróðurhúsalofttegunda vera farin að dragast saman, þó aðeins lítillega. Betur má ef duga skal því nú bendir allt til þess að Ísland muni vanta nokkuð upp á að efna skuldbindingar sínar fyrir tímabilið 2013-2020. Fram hefur komið að aðgerðir í frárennslismálum geta skilað árangri í að draga úr losun. Sama gildir um samdrátt í urðun úrgangs. Orkuskiptin í samgöngum hafa tekið kipp sem eykur líkur á að losun dragist enn frekar saman. Við verðum að horfa breitt yfir sviðið í loftslagsmálum. Það getur enginn einn gert þetta, heldur gerum við þetta saman. Ekkert er svo lítið að það skipti ekki máli. Í mörgum tilfellum eru loftslagsvænar lausnir að skila okkur hagræði fyrir budduna og betri nýtingu auðlinda. Við fá gjarnan 2 fyrir 1.
Umhverfisstofnun gegnir þýðingarmiklu hlutverki gagnvart almenningi. Starfsmaður Umhverfisstofnunar fer út í búð og athugar hvort hugað hafi verið nægilega að merkingu efnisins sem þú ert að fara að nota og getur verið hættulegt. Annar starfsmaður sér um að loftgæðamælarnir virki og niðurstöðurnar séu birtar á loftgæði.is. Gætt er að áhrifum í grennd þegar leyfi fyrir iðnað eru gefin út og öryggi gesta á friðlýstum svæðum er haft í huga við hönnun innviða á friðlýstum svæðum.
Stafrænar lausnir hafa heldur betur sannað sig í heimsfaraldrinum. Þarf ekki að fjölyrða um það að verulega hefði hægt á starfsemi Umhverfisstofnunar ef ekki hefði notið við hugbúnaðar sem styður stafræna samvinnu og vélbúnaðar sem er færanlegur hvert sem er.
Við vinnum nú að því að bæta þjónustu stofnunarinnar með því að bjóða upp á fleiri stafrænar lausnir og já, þú getur hlustað á okkur á vefnum í umhverfisvarpinu.
Komið með okkur inn í umhverfisvænni framtíð.
Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunar

Loftslagsmál og bætt loftgæði

Losun farin að dragast saman

Samkvæmt nýjasta losunarbókhaldi Íslands kom í ljós að losun gróðurhúsalofttegunda milli áranna 2018 og 2019 dróst saman um 2% og er það mesti samdráttur sem mælst hefur frá árinu 2012. hefur losunin verið nokkuð stöðug frá árinu 2011 en betur má ef duga skal. Markmið Íslands er að ná 29% samdrætti í losun árið 2030 miðað við 2005 og árið 2019 hafði losun dregist saman um 8%. Mikilvægt er að áætlanir um samdrátt í losun nái fram að ganga. Ein veigamesta uppspretta losunar sem fellur undir beina ábyrgð Íslands eru vegasamgöngur og því er sérstaklega jákvætt að sjá að samdráttur er hafin í þeim flokki. Aðrir flokkar sem dragast saman á milli áranna 2018 og 2019 eru losun frá urðun á úrgangi, fiskiskipum og nytjajarðvegi.

Í mars 2019 skilaði Umhverfisstofnun í fyrsta sinn fyrir hönd Íslands skýrslu til Evrópusambandsins sem leggur mat virkni stefnu og aðgerða í loftslagsmálum og spáir fyrir um hve hratt samdráttur mun eiga sér stað. Í spánni má sjá að gert var ráð fyrir að losun næði hámarki árið 2021 og færi svo lækkandi. Í ljósi þess að losunarbókhald sýndi samdrátt á milli áranna 2018 og 2019 verður áhugavert að sjá hvort þessum toppi hafi þegar verið náð.

Skýrslu um framreiknaða losun ber að skila á tveggja ára fresti og næstu skil verða á vordögum 2021. Þá verður losun gróðurhúsalofttegunda áætluð fram til ársins 2040 með tilliti til þeirra aðgerða sem settar voru fram í uppfærðri Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem gefin var út 2020. Skýrslan er lykilverkfæri í að meta jafnóðum hverju fyrirhugaðar loftslagsaðgerðir skila í samdrætti í losun og tryggja að þær dugi til að ná markmiðum stjórnvalda.

Verndun náttúru

Mörg ný svæði friðlýst

Umhverfisstofnun hefur í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið staðið fyrir átaki í friðlýsingum síðan árið 2018. Átakið er í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar um fjölgun friðlýstra svæða. Árið 2020 voru sjö ný svæði friðlýst og ein friðlýsing endurskoðuð. Friðlýstu svæðin eru því orðin alls 122 og flatarmál þeirra 26.676 km2 sem er ríflega fjórðungur landsins.

Svæðin sem friðlýst voru á árinu 2020 eru landslagsverndarsvæði í Þjórsárdal, Geysisvæðið, Goðafoss, Búrfell, Búrfellshraun og Selgjá og Kerlingarfjöll. Öll þessi svæði eiga það sameiginlegt að verndargildi þeirra er mjög hátt en á sama tíma ólíkt. Sem dæmi má nefna að Þjórsárdalur býr yfir mjög miklum fjölbreytileika hvað varðar jarðminjar, líffræðilega fjölbreytni og menningarminjar og Geysissvæðið er einstakt á heimsvísu og er eitt þekktasta goshverasvæði jarðar með Geysi sjálfan og Strokk fremsta í flokki. Goðafoss er einn af vatnsmestu fossum landsins og er vinsæll ferðamannastaður. Jarðminjar sem eru sérstakar á landsvísu er að finna innan Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár og hrauntraðir, gjár og misgengi eru mjög áberandi í landinu, auk merkra menningarminja. Síðast en ekki síst var staðfest friðlýsing Kerlingarfjalla sem er fjallabálkur á miðhálendi Íslands sem ber öll einkenni megineldstöðvar og þar er að finna eitt fjölbreyttasta hverasvæði landsins.

Öll þessi svæði eiga það sameiginlegt að vera vinsælir ferðamannastaðir eða útivistarsvæði og er friðlýsingunum ætlað að styðja við það hlutverk.

Auk fyrrgreindra svæða var friðlýsing fólkvangsins Hliðs endurskoðuð á árinu og tvö svæði í verndarflokki rammaáætlunar friðlýst, Gjástykki og Brennisteinsfjöll.

Verndun vatns, hafs og stranda

Fyrsta vatnaáætlunin í kynningu

Vatn er forsenda alls lífs á jörðinni og kemur við sögu á hverjum degi í mismunandi birtingarmyndum, allt frá vatninu sem við drekkum til ýmiskonar notkunar tengdum iðnaði og framleiðslu matvæla t.d. ræktun, landbúnaði og fiskvinnslu. Hreint vatn er mikilvægur þáttur í grænu hagkerfi og styrkir ímynd Íslands út á við. Vatn er dýrmæt auðlind sem þarf að vernda og stýra notkun á.

Umhverfisstofnun hefur unnið að fyrstu vatnaáætlun fyrir Ísland í tengslum við lög um stjórn vatnamála en lögin fela í sér nýja nálgun í vatnsvernd hér á landi. Vinnan hefur farið fram í samvinnu við fjölmarga aðila enda er mikilvægt að fagleg þekking og sjónarmið sem flestra komist að. Markmiðið með áætluninni er að vernda vatn og vistkerfi þess og stuðla að því að vatn njóti heildstæðrar verndar. Vatnaáætlun samanstendur af vöktunaráætlun sem hefur þann tilgang að metið verði álag, ástand og langtímabreytingar og aðgerðaáætlun sem miðar að því að viðhalda góðum gæðum vatns og koma vatnshlotum sem eru í slæmu ástandi yfir í gott ástand.

Umhverfisstofnun hefur lagt fram tillögu að vatnaáætlun, aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun til opinberrar kynningar þar sem gefinn er kostur á því að koma með ábendingar og athugasemdir til 15. júní 2021. Gert er ráð fyrir að vatnaáætlun taki gildi í byrjun árs 2022 og mun áætlunin gilda til sex ára í senn.

Verndun heilnæms umhverfis

Málshraði stofnunarinnar er í samræmi við sett markmið

Umhverfisstofnun starfar samkvæmt stjórnsýslulögum og skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Umhverfisstofnun hefur sett sér tímamörk fyrir afgreiðslu erinda eftir eðli þeirra. Umsækjendur um starfsleyfi þurfa að fá strax í upphafi nokkuð raunsæjar upplýsingar um hvað gera megi ráð fyrir að vinnsla starfsleyfa taki langan tíma. Verkefni stofnunarinnar er að setja fram hæfilegar kröfur um mengunarvarnir m.t.t. náttúru og nærsamfélags.

Bak við vinnslu starfsleyfis liggur mikil vinna við að staðfæra hvert leyfi og samráð við ýmsa aðila bæði innan stofnunar og utan. Samhliða endurskoðun verklags við gerð starfsleyfa til að tryggja að leyfin standist ávallt endurskoðun úrskurðarstjórnvalda er mikilvægt að gera ráðstafanir til að málshraðaviðmið séu einnig virt. Umhverfisstofnun hefur sett sér þau viðmið að afgreiðsla starfsleyfa taki ekki meira en 240 daga. Árið 2020 stóðst útgáfa starfsleyfa málshraðaviðmið í tæplega 90% tilfella.

Sjálfbær nýting auðlinda

Spjaraþon og saman gegn sóun

Spjaraþon var haldið í ágúst 2020 og var tveggja daga hugmyndasmiðja þar sem þátttakendur mynduðu teymi, lærðu um vanda textíliðnaðarins og þróuðu í framhaldinu lausnir til að sporna gegn textílsóun og neikvæðum umhverfisáhrifum textíls.

Þátttakendur hlýddu á fyrirlesara úr ýmsum áttum fjalla um um stöðu vandans, áhrif hönnunar á umhverfisáhrif textíls og hvernig þróa má góðar hugmyndir yfir í árangursríkar og raunhæfar lausnir. Þegar teymin höfðu mótað sína hugmynd, kynntu þau hana fyrir dómnefnd sem valdi tvö verkefni sem voru verðlaunuð.

Það var gaman að sjá hugmyndir verða til á staðnum og fólk úr ólíkum áttum tengjast í gegnum sameiginlegt áhugasvið og vinna saman að lausnum. Upp úr smiðjunni hafa myndast hópar sem eru enn að þróa sínar hugmyndir. Má þar nefna sigurvegara hugmyndasmiðjunnar, Spjara, sem er einskonar Airbnb fyrir fatnað og gerir notendum kleift að leigja út og fá lánaðar flíkur eftir hentisemi. Einnig má nefna verkefnið Textíllab sem er tilraunastofa með textíl þar sem ætlunin er að gefa fólki tækifæri til að prófa hugmyndir sínar um að vinna textíl úr nýstárlegu hráefni.

Spjaraþonið er áhersluverkefni undir úrgangsforvarnarstefnunni Saman gegn sóun, en samhliða Spjaraþoninu var sett í loftið ný fræðslusíða í kringum verkefnið www.samangegnsoun.is. Þar er fjallað um umhverfisáhrif plasts og textíls og hvernig við sem neytendur getum takmarkað þau áhrif.

Grænt og framsýnt samfélag

Tímamót í Svansvottun bygginga

Eftirspurn eftir Svansvottun bygginga hefur aukist mikið undanfarin ár á Norðurlöndunum sem og á Íslandi. Umhverfisáhrif byggingageirans eru ótvíræð en þó má sjá jákvæð teikn á lofti svo sem í auknum áhuga og þekkingu íslenskra verktaka og birgja á umhverfisvottunum. Á árinu 2020 sáum við mikla aukningu í fjölda umsókna, fyrirspurna og kynningarfunda um Svansvottaðar byggingar og vottaðar endurbætur.

Eftir að fyrsta verkefninu lauk á Íslandi árið 2017 fór boltinn að rúlla hérlendis og mörg spennandi verkefni, stór sem lítil, í farvatninu um allt land. Stórum áfanga lauk í september 2020 þegar Reitir urðu fyrsti aðilinn á Norðurlöndunum til að klára Svansvottaðar endurbætur eftir að hafa tekið í gegn skrifstofuhúsnæði Umhverfisstofnunar að Suðurlandsbraut sem er í eigu fyrirtækisins. Þá stendur einnig til að byggja fyrsta Svansvottaða grunnskólann, Kársnesskóla.

Meginmarkmið Svansvottunar er að draga úr umhverfisáhrifum bygginga, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tryggja góða innivist fyrir notendur með ströngum kröfum um meðal annars innihald efna í bygginga- og efnavöru, dagsbirtuhönnun, loftræsingu og kröfur um rakavarnir. Kröfurnar ná einnig til gæðastjórnunar á verkstað, en skýr stýring á umhverfisþáttum og gæðastjórnun helst oft í hendur. Viðmið Svansins fyrir einstaka vöruflokka, svo sem nýbyggingar og endurbætur húsnæðis, eru endurskoðuð reglulega og hert sem tryggir að kröfurnar byggja ávalt á nýjustu vitneskju og taki tillit til þórunar á markaðnum.

Hér má nálgast upplýsingar um Svansvottun bygginga.

Markviss upplýsingagjöf

Umhverfisvarpið – stafræn miðlun upplýsinga

Umhverfisvarpið er verkefni sem hóf göngu sína árið 2020. Um er að ræða stafræna fræðslu sem send er út að jafnaði einu sinni í mánuði. Sérfræðingar Umhverfisstofnunar miðla þar fræðslu um tiltekin verkefni eða umfjöllunarefni. Fræðslan er öllum opin en markhópurinn breytilegur eftir því hvaða viðfangsefni er tekið fyrir hverju sinni.

Markviss upplýsingagjöf er eitt af átta markmiðum Umhverfisstofnunar og umhverfisvarpið stuðlar með beinum hætti að því að uppfylla það markmið. Tilgangurinn er að veita markvissar upplýsingar um mikilvæg og áríðandi málefni, auka þekkingu á verkefnum stofnunarinnar og aðgengi að sérfræðingum hennar, efla umhverfisvitund í samfélaginu, stuðla að gagnsæi og halda fjarfundamenningu á lofti.

Fyrsta varpið fór í loftið í lok apríl 2020. Umræðuefnin sem tekin voru fyrir á árinu voru mjög fjölbreytt. Þar má m.a. nefna umfjöllun um áherslur mengunareftirlits, átak í friðlýsingum, niðurstöður losunarbókhalds Íslands, grænþvott, umsagnir og störf landvarða. Eftir hverja útsendingu eru kynningarnar gerðar aðgengilegar áfram á YouTube-rás stofnunarinnar og á heimasíðu verkefnisins https://ust.is/umhverfisstofnun/utgefid-efni/umhverfisvarpid/

Mikil ánægja hefur verið með verkefnið og verður því haldið áfram á árinu 2021.

Fyrirmyndar stofnun

Laun óháð kyni

Umhverfisstofnun hlaut jafnlaunavottun í byrjun árs 2020. Í þeirri vottun felst mikilvæg yfirlýsing og við erum stolt af þeim grunni sem þar er lagður að sanngjarnri launasetningu fyrir allt starfsfólk.

Viðhaldsúttekt í sýndi að sá grunnur sem var reistur var að skilvirku jafnlaunakerfi virðist vera góður. Launagreiningin kom aftur mjög vel út og staðfesti að kerfið er rétt uppbyggt. Það er mikilvægt að fá svona staðfestingu á launakerfi stofnunarinnar. Launakerfið byggir á stofnanasamningum sem hafa með þessu sannað gildi sitt. Nú er það okkar hlutverk að byggja á þessum grunni og treysta hann með því að vinna áfram markvisst samkvæmt launastefnu stofnunarinnar.