Loftslagsmál og bætt loftgæði
Losun farin að dragast saman
Samkvæmt nýjasta losunarbókhaldi Íslands kom í ljós að losun gróðurhúsalofttegunda milli áranna 2018 og 2019 dróst saman um 2% og er það mesti samdráttur sem mælst hefur frá árinu 2012. hefur losunin verið nokkuð stöðug frá árinu 2011 en betur má ef duga skal. Markmið Íslands er að ná 29% samdrætti í losun árið 2030 miðað við 2005 og árið 2019 hafði losun dregist saman um 8%. Mikilvægt er að áætlanir um samdrátt í losun nái fram að ganga. Ein veigamesta uppspretta losunar sem fellur undir beina ábyrgð Íslands eru vegasamgöngur og því er sérstaklega jákvætt að sjá að samdráttur er hafin í þeim flokki. Aðrir flokkar sem dragast saman á milli áranna 2018 og 2019 eru losun frá urðun á úrgangi, fiskiskipum og nytjajarðvegi.
Í mars 2019 skilaði Umhverfisstofnun í fyrsta sinn fyrir hönd Íslands skýrslu til Evrópusambandsins sem leggur mat virkni stefnu og aðgerða í loftslagsmálum og spáir fyrir um hve hratt samdráttur mun eiga sér stað. Í spánni má sjá að gert var ráð fyrir að losun næði hámarki árið 2021 og færi svo lækkandi. Í ljósi þess að losunarbókhald sýndi samdrátt á milli áranna 2018 og 2019 verður áhugavert að sjá hvort þessum toppi hafi þegar verið náð.
Skýrslu um framreiknaða losun ber að skila á tveggja ára fresti og næstu skil verða á vordögum 2021. Þá verður losun gróðurhúsalofttegunda áætluð fram til ársins 2040 með tilliti til þeirra aðgerða sem settar voru fram í uppfærðri Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem gefin var út 2020. Skýrslan er lykilverkfæri í að meta jafnóðum hverju fyrirhugaðar loftslagsaðgerðir skila í samdrætti í losun og tryggja að þær dugi til að ná markmiðum stjórnvalda.