Eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar er að vinna að undirbúningi friðlýsinga. Við þá vinnu leggur Umhverfisstofnun mjög mikla áherslu á samráð við hagaðila og samfélagið þar sem eru einstaklingar sem þekkja svæðin vel og bera hag þeirra fyrir brjósti. Framlag samfélagsins er mjög mikilvægt og getur haft mikil áhrif á framgang undirbúningsins. Fyrirkomulag samráðs er almennt með þeim hætti að í samstarfshópum sem vinna að undirbúningi friðlýsinga sitja auk fulltrúa Umhverfisstofnunar fulltrúar landeigenda og sveitarfélaga. Leitað er til sérfræðinga og fagstofnana eftir þörfum. Því til viðbótar eru opin kynningarferli þar sem öllum gefst kostur á að senda inn ábendingar og athugasemdir sem fjallað er um í samstarfshópi auk þess sem oft eru haldnir opnir kynningarfundir.
Eitt af þeim svæðum sem friðlýst var á árinu er Goðafoss í Skjálfandafljóti í Þingeyjarsveit. Fossinn er einn af vatnsmestu fossum landsins og er vinsæll ferðamannastaður. Undirbúningur friðlýsingarinnar fór fram í mjög góðu samstarfi við landeigendur Rauðár, Ljósavatns og Hriflu, sem allir eiga land innan svæðisins, auk sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar. Áður en svæðið var friðlýst hafði Þingeyjarsveit byggt upp góða aðstöðu sem gefur ferðamönnum tækifæri til að njóta svæðisins en með tilkomu friðlýsingarinnar tekur Umhverfisstofnun við umsjón og rekstri svæðisins til framtíðar í samráði við sveitarfélag og landeigendur.