Grænu skrefunum hefur vaxið fiskur um hrygg með hverju árinu sem líður. Í lok árs 2020 voru 118 stofnanir skráðar í verkefnið með 371 starfstöð um land allt. Grænu skrefin höfðu verið valkvæð frá upphafi en verkefnið tók stakkaskiptum á árinu 2020 þar sem unnið var samkvæmt markmiði loftslagsstefnu Stjórnarráðsins um að allar stofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins skyldu hafa lokið öllum fimm Grænu skrefunum fyrir árslok 2021. Með þátttöku í Grænu skrefunum gefst ríkisstofnunum tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar. Verkefnið er fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneyti og er þátttaka því stofnunum að kostnaðarlausu.
Nýr gátlisti Grænu skrefanna leit dagsins ljós árið 2020 með uppfærðum skrefum sem styðja betur við þá skyldu ríkisaðila að setja sér loftslagsstefnu fyrir lok árs 2021. Einnig voru birtar leiðbeiningar um gerð loftslagsstefnu á heimasíðu Grænna skrefa sem er ætlað að auðvelda ríkisaðilum að setja sér vandaða loftslagsstefnu. Í könnun sem send var til þátttakenda Grænna skrefa undir lok árs 2020 kom fram að yfir 80% svarenda höfðu kynnt sér leiðbeiningarnar og 53% höfðu nú þegar hafið vinnu við gerð loftslagsstefnu.
Vinna við útfærslu á leiðbeiningum fyrir sveitarfélög er í vinnslu og er framkvæmdin í höndum Sambands íslenskra sveitarfélaga.