Fræðsludagskrá þýðingarmikil í heimsfaraldri

Umhverfisstofnun hefur á að skipa afar öflugum sérfræðingahópi sem gerir kröfur til starfsþróunar og endurmenntunar. Árlega eru gerðar starfsþróunaráætlanir fyrir hvern starfsmann og endurmenntun er mikilvægur þáttur í því. Fræðsluáætlun stofnunarinnar er stór þáttur í fræðsluumhverfi starfsfólks en áætlunin er sniðin að helstu sameiginlegu viðfangsefnum okkar. Á árinu 2020 voru haldin 14 námskeið fyrir starfsfólk og fjölmargir styttri fundir um málefni líðandi stundar undir heitinu Hádegismolar. Einnig voru haldnar fjórar móttökur fyrir nýja starfsmenn á árinu en þar er stefna, vinnulag og aðbúnaður kynnt fyrir nýju starfsfólki. Einnig var haldinn starfsdagur stofnunarinnar og teymisstjóradagur. Fræðslustarfið fór ekki varhluta af breyttum aðstæðum í starfseminni vegna Covid-19 og flest námskeiðin voru rafræn. Þátttaka starfsfólks var yfirburða góð en meirihluti starfsfólks sótti námskeiðin auk þess að taka góðan þátt með líflegum umræðum.