Vetnisflúorkolefni (HFC-efni) eru framleidd í ýmis konar tilgangi fyrir iðnað en mest þó til að nota sem miðla fyrir kæli- og loftræstikerfi. Þessi efni eru kröftugar gróðurhúsalofttegundir og með hærri hnatthlýnunarmátt en koldíoxíð, jafnvel allt að 3000 faldan. Kvóti á innflutningsheimildir kælimiðla sem innihalda HFC-efni tók gildi í byrjun árs 2019 en frá árinu 2016 hefur Umhverfisstofnun haft eftirlit með innflutningi miðlanna. Svipaðar aðgerðir hafa verið framkvæmdar víðs vegar um heim í kjölfar Kigali breytingarinnar við Montréal bókunina sem Ísland gerðist aðili að í janúar síðastliðinn.
Árin 2019 og 2020 voru innflutningsheimildir 244 kílótonn koldíoxíðsjafngilda en raunverulegur innflutningur bæði árin var langt undir þeim heimildum sem úthlutað var. Tekin var ákvörðun um að hraða útfösun HFC-efna og sú reglugerðarbreyting tók gildi um síðastliðin áramót og eru því innflutningsheimildir fyrir árin 2021-2023 um 95 kílótonn koldíoxíðsjafngilda eða tæp 40% af því magni sem flytja mátti inn á árinu 2020. Meginmarkmið með þessum aðgerðum er að minnka losun flúoraðra gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið en þær valda um 5% af losun á beinni ábyrgð Íslands.