Mikil áhersla hefur verið á að draga úr notkun á einnota plastvörum. Ástæðurnar fyrir þessu eru magnið af einnota plastvörum sem við erum að nota og hve stuttur notkunartími þeirra er. Síðast en ekki síst er vandinn að mikið af þeim enda á ströndum og í lífríki sjávar þar sem plastið velkist um í vistkerfum árhundruðum saman.
Í upphafi 2021 tóku í gildi ný lög sem gera það óheimilt að afhenda burðarpoka úr plasti á sölustöðum vara, hvort sem það er með eða án gjalds. Bann við að afhenda alla burðarpoka án endurgjalds á sölustöðum vara tók gildi 1. september 2019 og voru því birgjar byrjaðir að vinna að þessu marki fyrr. Það sést vel ef skoðuð er árleg notkun einnota burðarpoka úr plasti en samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar dróst hún saman um 33 poka á hvern íbúa á ári frá 2018 til 2020.
Þó er ekki vitað í hvaða mæli plastpokum hefur verið skipt út fyrir poka úr öðrum efnum. Jafnvel þó aðrir einnota pokar valdi almennt ekki sama skaða í lífríkinu og plastpokar, þá er kolefnisspor í framleiðslu annarra poka, s.s. pappírspoka, oft mun hærra en plastpoka. Því er í vinnslu fræðsluefni sem kynnt verður bæði á vef og á fræðslufundum sem miðar að því að fræða fyrirtæki og framleiðendur um leiðir til að nýta löggjöfina sem tækifæri til að innleiða hringrásarhagkerfið og draga úr einskiptis notkun heilt yfir.