Betri vinnutími

Gott starfsumhverfi er áhersluatriði hjá Umhverfisstofnun. Því var ákveðið að undirbúa kjarasamningsbundna styttingu vinnuvikunnar vel með virkri þátttöku starfsfólks. Verkefninu var hrint af stað af fullum krafti í september og fundað með öllu starfsfólki. Myndaður var vinnutímahópur sem vann góða vinnu við skilgreiningar á verkefninu og útfærslu. Gerð var tillaga um styttingu vinnuvikunnar í lok nóvember sem var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða starfsfólks. Skemmst er frá því að segja að farið var í fulla styttingu og ákveðið að stytta alla daga til jafns . 36 stunda vinnuvika hjá Umhverfisstofnun byggir á sama sveigjanleika og áður, svo starfsfólk getur skipulagt vinnudaginn miðað við lágmarksviðveru á háannatíma dags. Ákveðið var að árangur styttingarinnar yrði mældur á 6 mánaða fresti og stofnaður var innleiðingarhópur í kjölfarið sem hefur það hlutverk að sinna mælingum og stuðla að stöðugum umbótum í starfseminni til að styðja við betri vinnutíma.