Umhverfisvænni ríkisinnkaup

Fleiri og fleiri rammasamningar innihalda nú sérstök umhverfisskilyrði og því ber að fagna. Umhverfisskilyrði í rammasamningum einfalda ríkisaðilum að velja umhverfisvænni kosti þegar kemur að innkaupum á vörum og þjónustu. Ríki og sveitarfélög ráðstafa árlega yfir 400 milljörðum króna og er því mikilvægt að nýta þann innkaupamátt til að draga úr umhverfisáhrifum innkaupa eins og hægt er.

Vistvæn innkaup eru liður í Grænum skrefum í ríkisrekstri og styður þessi þróun við stofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkis sem taka þátt í verkefninu. Þannig er til dæmis tryggt að ef keypt er prentþjónusta innan rammasamnings þá er skipt við Svansvottað fyrirtæki og stofnunin þarf því ekki sjálf að rýna innkaupin með tilliti til þessa.

Í takt við loftslagsstefnu Stjórnarráðsins hefur einnig verið lögð aukin áhersla á vistvænar samgöngur innan rammasamninga og má nú sjá umhverfisskilyrði bæði í rammasamningi fyrir bílaleigubíla og leigubílaakstur. Það samræmist áherslum í Grænu skrefunum um að ríkisaðilar dragi úr losun frá samgöngum. Á síðasta ári var einnig innleidd ákvörðun ríkisstjórnar um að allar bifreiðar ríkisins eigi að vera vistvænar og endurspeglar rammasamningur um bifreiðakaup nú þá ákvörðun.

Rammasamningar með umhverfisskilyrðum styðja þannig við verkefni Umhverfisstofnunar, s.s. Græn skref í ríkisrekstri, loftslagsstefnu ríkisaðila og norræna umhverfismerkið Svaninn.