Úrgangur í fráveitu er vandamál alls staðar á landinu. Auk þess að valda skaða á umhverfinu og rekstri fráveitukerfa, verða sveitarfélög fyrir miklum kostnaði þegar hreinsa þarf dælur og farga úrgangi sem berst í fráveitukerfin. Um hálft kíló af rusli fer í klósettin eða niðurföll á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu og því má áætla að árlega skili Íslendingar um 180 tonnum af rusli út í sjó með þessum hætti ef engin hreinsun er fyrir hendi.
Til að skerpa á skilaboðum um hvað má fara í klósettið og hvað ekki létu Umhverfisstofnun og Samorka búa til skemmtilegt kynningarefni sem allir geta nýtt sér og deilt áfram að vild. Verkefnið var unnið í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlit um allt land og markmið þess er að draga úr rusli í fráveitu og draga um leið úr álagi á umhverfið okkar.
Verkefnið var kynnt á alþjóðlega klósettdeginum þann 19. nóvember sl. . og vakti mikinn áhuga og heyrst hefur af bæði börnum og fullorðnum syngjandi „piss, kúkur, klósettpappír...“.
Kynningarefnið má finna á vefsíðunni klosettvinir.is