Efnaeftirlit í kjölfar ábendinga fyrirferðamikið

Til að tryggja yfirsýn og framkvæmd efnalaga útbýr Umhverfisstofnun eftirlitsáætlun til þriggja ára í senn með yfirliti yfir sértæk verkefni sem unnin verða og skipulagningu þeirra. Við forgangsröðun er lögð áhersla á öryggi almennings og umhverfisvernd.

Teymi efnamála hefur sett sér árangursvísa vegna efnaeftirlits sem taka mið af mannafla hverju sinni og reynslu sem byggst hefur upp frá árinu 2013 þegar efnalögin tóku gildi. Til þess að geta hagað efnaeftirliti með viðunandi hætti er talið hæfilegt að skilgreind séu 10 sértæk eftirlitsverkefni á hverju ári þar sem skoðaðar eru um 200 vörur hjá 50 fyrirtækjum.

Til viðbótar við þau verkefni sem sett eru á eftirlitsáætlun hvers árs koma til eftirlitsverkefni sem ráðist er í þegar ábendingar um hugsanleg brot á efnalögum berast Umhverfisstofnun Stofnunin setur í forgang að bregðast við þeim til þess að koma í veg fyrir að á markaði séu vörur sem vitað er að uppfylla ekki kröfur laganna.

Þegar skoðaðar eru upplýsingar um eftirlitsverkefni áranna 2019 og 2020 kemur í ljós að markmið um fjölda verkefna sem ráðist er í á hverju ári hefur náðst og sömuleiðis að heimsækja tiltekinn fjölda fyrirtækja. Aftur á móti vantar nokkuð upp á að ná markmiði um að skoða þann fjölda vara sem árangursvísirinn tiltekur.

Eftirlit í kjölfar ábendinga vegna hugsanlegra brota á efnalögum er fyrirferðarmikið í starfsemi teymis efnamála. Þannig var ráðist í 15 slík verkefni á árinu 2019 þar sem skoðaðar voru 35 vörur hjá 15 fyrirtækjum og 21 verkefni á árinu 2020 þar sem skoðaðar voru 50 vörur hjá 33 fyrirtækjum. Skilvirkni í eftirliti, með skýrum verkferlum og fumlausum vinnubrögðum, er mikilvæg til þess að hægt sé að sinna eftirliti í kjölfar ábendinga án þess að það komi niður á verkefnum sem sett hafa verið í forgang á eftirlitsáætlun.