Þann 19. mars 2021 hófst eldgos í Fagradalsfjalli. Vinna Umhverfisstofnunar í tengslum við gosið hófst nokkrum vikum fyrr.

Mikilvægar upplýsingar um loftgæði

Áður en gosið hófst varð ljóst að almenningur þyrfti aðgang að upplýsingum um loftgæði. Aðeins einn SO2 mælir á vegum HS orku var í Grindavík. Það þurfti því að þétta mælinet í grennd við eldgosið.

Í vikunni fyrir gos voru settar upp færanlegar mælistöðvar við tjaldsvæðið í Vogum og í Lerkidal í Njarðvík. Eftir að gos hófst voru einnig settir upp mælar í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ, Háaleitisskóla við Ásbrú og í Höfnum.


SO2 loftgæðamælar í grennd við Fagradalsfjall. Blár punktur sýnir mæli HS Orku sem staðsettur var í Grindavík. Mælar í Vogum, Njarðvík, Ásbrú, Myllubakkaskóla og að Höfum voru settir upp til að vakta loftgæði vegna eldgossins.

Á meðan eldgosinu stóð var starfsfólk loftgæðateymis Umhverfisstofnunar í samráði við Almannavarnir og Veðurstofuna um að senda út tilkynningar vegna gasmengunar þegar toppar mynduðust á mælistöðvum í nágrannabæjum við Fagradalsfjall. Starfsfólk svaraði einnig fjölda fyrirspurnum frá fjölmiðlum og almenningi.

Leiðbeiningar fyrir almenning um hættu á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum voru uppfærðar í maí í samráði við Embætti landlæknis og hagsmunaaðila.

Landvarsla sett upp á mettíma

Gossvæðið varð á augabragði vinsælasti áfangastaðurinn á landinu. Mesti fjöldi sem mældist á einum degi var tæplega 5.800 gestir. Teljarar við tvær leiðir inn á svæði töldu um 332 þúsund gesti á árinu en það má reikna með að þeir hafi verið talsvert fleiri.

Fljótlega kom fram hugmynd um að hafa landvörslu á svæðinu. Markmið landvörslunnar voru:

  • Draga úr álagi á viðbragðsaðila
  • Fræða gesti og auka þannig öryggi þeirra
  • Vernda ný myndaðar jarðminjar (friðaðar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013).

Um miðjan maí barst formleg beiðni frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu um að hefja ráðningu landvarða og skipuleggja starf þeirra á svæðinu.

Aðeins tveimur vikum síðar hafði Umhverfisstofnun ráðið átta landverði, skipulagt starfsemina og komið á staðinn ýmsum búnaði og aðstöðu.

Við komu landvarðanna gátu viðbragðsaðilar dregið úr viðveru sinni á svæðinu. Hlutverk landvarðanna fólst þó fyrst og fremst í upplýsingagjöf og fræðslu.


Viðkvæm náttúra og öryggi gesta

Landverðirnir höfðu eftirlit með umgengni í viðkvæmri náttúru gosstöðvanna. Þeir skiluðu reglulegum ábendingum um ástand gönguleiða og innviða til samráðshóps viðbragðsaðila á svæðinu.

Landverðirnir bættu öryggi gesta með að upplýsa þá um aðstæður og hættur á svæðinu.

Landverðirnir sinntu minni háttar viðhaldi á gönguleiðum. Þeir tíndu einnig rusl og bættu ásýnd svæðisins.

Landverðirnir höfðu eftirlit með því að ákvæði náttúruverndarlaga væru virt og aðrar reglur sem um svæðið gilti. Þeir höfðu samskipti við lögreglu vegna brota á lögum og reglum.


Ótal verkefni á bak við tjöldin

Starfsfólk Umhverfisstofnunar vann ekki bara sýnileg verkefni á gossvæðinu sjálfu.

Það varð mikil fjölgun á beiðnum um undanþágur frá banni við akstri utan vega í tengslum við eldgosið. Það voru meðal annars fjölmiðlar og vísindafólk sem þurfti greiðari aðgang.

Mat á möguleikanum til að veita undanþágur var unnið reglulega eftir framvindu eldvirkninnar (skv. 31. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013).

Fjöldi annarra starfsmanna vann verkefni í tengslum við eldgosið, beint eða óbeint. Þar má nefna lögfræðinga, sérfræðinga á friðlýstum svæðum, sérfræðinga í akstri utan vega, sérfræðinga í gagnagrunnum, forstjóra, mannauðsstjóra, gæðastjóra og svo mætti lengi telja.

Öflugt samstarf við hagsmunaaðila

Starfsfólk Umhverfisstofnunar var í góðu og mjög reglulegu samstarfi við Almannavarnir, Lögregluna, Embætti landlæknis, Veðurstofuna, viðbragðsaðila á svæðinu, landeigendur, fjölmiðla og fleiri aðila í tengslum við eldgosið.