Umhverfisstofnun leggur sig fram við að vinna að gildandi markmiðum úr stefnu stofnunarinnar með framsýni, samstarf og árangur að leiðarljósi.

Mengun yfir heilsuverndarmörkum á höfuðborgarsvæðinu á nýársdag

Svifryk fór yfir heilsuverndarmörk á flestum mælistöðum á höfuðborgarsvæðinu á nýársdag. Það var aðeins mælistöðin á Norðurhellu í Hafnarfirði sem var undir mörkum en sú stöð er staðsett utan við íbúabyggð.


Í hægviðrinu þessi áramót mátti sjá greinilega að þegar líða tók á nýársnótt fylgdi flugeldamengunin landslaginu og seig niður í dældir. Þannig mátti sjá að hæstu gildin milli kl. tvö og þrjú um nóttina voru á mælistöðvum í Laugardalnum og Kópavogsdalnum.

2. janúar 2021

Ný og uppfærð Græn skref

Verkefnið Græn skref ríkisstofnana hefur verið í miklum vexti og því var farið í allsherjar rýni og uppfærslu á aðgerðunum sem liggja til grundvallar skrefunum. Sumar aðgerðir voru teknar út, öðrum breytt og mörgum nýjum bætt við. Til að mynda er nú lögð meiri áhersla á skyldu stofnana til að setja sér loftslagsstefnu. Stefnt var að því að allir ríkisaðilar hefðu innleitt Græn skref til fulls fyrir árslok 2021.

14. janúar 2021

Kortasjá opnuð

Umhverfisstofnun opnaði nýja kortasjá. Þar má finna lista yfir og aðgengi að öllum sérkortum og kortasjám Umhverfisstofnunar. Um fjörutíu kort voru aðgengileg við opnun og fyrirséð að þeim muni fjölga talsvert.

20. janúar 2021

Svansvottun á mötuneyti Íslandsbanka

Mötuneyti Íslandsbanka fékk Svansvottun á þjónustuna sína og sýndi þannig gott fordæmi og framfylgir sjálfbærnistefnu bankans. Í kjölfar vottunar er eingöngu notast við umhverfisvottuð ræstiefni, innkaup á lífrænum matvörum eru aukin og fylgst er vel með matarsóun. Þetta er þriðja mötuneytið á Íslandi sem fær Svansvottun.

25. janúar 2021

Hvað hefur Covid-19 kennt okkur um umhverfismál?

Umhverfisstofnun hvatti landsmenn til að nýta sér þann lærdóm sem draga mátti af kórónuveirufaraldrinum. Þar urðu óvenjulegar aðstæður oft til þess að það dró úr umhverfisáhrifum daglegrar neyslu. Hvatt var til þess að draga áfram úr samgöngum og huga vel að sóun.

28. janúar 2021

Leiðarvísir um Hakkaþon

Umhverfisstofnun hefur nokkra reynslu af því að skipuleggja og halda svokölluð hakkaþon eða nýskapandi hugmyndasmiðjur. Stofnunin leggur áherslu á að efla samstarf um opinbera nýsköpun og því hefur verið útbúinn leiðarvísir um hakkaþon sem er kominn á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins um opinbera nýsköpun.

25. febrúar 2021

Eldgos mögulega að hefjast á Reykjanesi

Umhverfisstofnun setti upp tækjabúnað í Vogum til að mæla styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2) og fylgjast með loftgæðum á svæðinu.

3. mars 2021

Eldgos hafið á Reykjanesi

Eldgos hófst við Fagradalsfjall í Geldingadölum að kvöldi 19. mars.

19. mars 2021

Fyrstu ráðleggingar varðandi gasmengun gefnar út

Umhverfisstofnun sendi frá sér leiðbeiningar varðandi gasmengun í tengslum við eldgosið á Reykjanesi.

20. mars 2021

Sprenging í Svansvottuðum nýbyggingum

Stóraukin eftirspurn var eftir því að fá Svansvottun á nýbyggingar. Vísbendingar eru um að þróunin á Ísland muni fylgja þeirri þróun sem hefur verið á hinum Norðurlöndunum þar sem fjöldi Svansvottaðra bygginga hefur þrefaldast á undanförnum árum. Stór íslensk vottunarverkefni eru ýmist farin af stað eða í bígerð svo sem Kársnesskóli í Kópavogi.

23. mars 2021

Bæklingur um hættu á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosi

Umhverfisstofnun, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofan, Landspítali og fleiri samstarfsaðilar gáfu út leiðbeiningabækling fyrir almenning um hættu á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum.

26. mars 2021

Greining á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda vegna losunar fráveituvatns

Umhverfisstofnun lét vinna greiningu á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda vegna losunar fráveituvatns. Meginniðurstaða var sú að árangursríkustu aðgerðirnar gagnvart loftslaginu eru að tryggja ásættanlega fráveituhreinsun og að nýta næringarefni í seyrunni með markvissari hætti t.d. með landgræðslu.

7. apríl 2021

Útgáfa stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Friðland að Fjallabaki

Vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Friðland að Fjallabaki var umfangsmikið verkefni sem unnið var í nánu samstarfi við sveitarfélag og hagsmunaaðila. Við vinnuna var lögð mikil áhersla á samráð. Það voru haldnir voru opnir kynningarfundir og sérstakir fundir með hagsmunaaðilum.

9. apríl 2021

Opnun Hornstrandastofu

Hornstrandastofa, gestastofa friðlandsins Hornstranda, var formlega opnuð. Gestastofan er staðsett í Björnsbúð að Silfurgötu 1 á Ísafirði. Gestastofan er opin alla daga yfir sumartímann og öllum velkomið að kíkja við, hvort heldur ef verið er að undirbúa ferð á Hornstrandir eða til að njóta þess sem sýningin um Hornstrandir hefur upp á að bjóða.

21. apríl 2021

Kynning fyrstu vatnáætlunar Íslands 2022-2027

Opin kynning á fyrstu vatnaáætlun fyrir Ísland fór fram. Við segjum oft að á Íslandi sé eitt hreinasta vatn í heimi en er það í raun svo? Hluti af vinnunni við vatnaáætlun er einmitt að geta staðfest gæði vatns, draga úr álagi þar sem þess er þörf og vakta vatn til framtíðar. Mikið samráð og samtal fór fram við gerð vatnaáætlunar og var kynningarfundurinn hluti af því mikilvæga ferli.

21. apríl 2021

Sníðum okkur stakk eftir vexti – Konur og textílsóun

Málþing um aðgerðir gegn textílsóun og ójöfnuð fór fram undir heitinu: Sníðum okkur stakk eftir vexti. Þar var meðal annars framsaga frá sérfræðingi Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og niðurstöður úr rannsókn meistaranema í félagssálfræði um kauphegðun Íslendinga kynntar.

21. maí 2021

Fundir með atvinnulífinu um einnota plastvörur

Bann við að setja á markað ýmsar tegundir af einnota plastvörum og nýjar reglur um sölu eða aðra afhendingu á vörum úr plasti tóku gildi í júlí.


Í mars, apríl og maí 2021 var haldin röð opinna funda með Samtökun iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Grænvangi og fleirum. Þar fór sérfræðingur Umhverfisstofnunar yfir það hvað teljist sem einnota plastvörur, hvað fælist í banninu, hvað væri leyfilegt og hvað ekki.

26. maí 2021

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull 20 ára

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður þann 28. júní 2001 og fagnaði 20 ára afmæli árið 2021. Af því tilefni var heil vika undirlögð af viðburðum. Þjóðgarðurinn var jafnframt stækkaður.

28. júní 2021

Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda á árinu 2020

Umhverfisstofnun gerði bráðabirgðaútreikninga á losun gróðurhúsalofttegunda í annað sinn. Útreikningarnir hafa sýnt mjög lítil frávik frá endanlegum niðurstöðum bókhaldsins. Bráðabirgðaútreikningar fyrir 2020 sýndu samdrátt í losun um 5% á milli áranna 2019 og 2020.

6. júlí 2021

Gönguleiðin að Grænahrygg stikuð

Gönguleið að Grænahrygg í Friðlandi að Fjallabaki varð skyndilega mjög vinsæl. Sökum þess var ákveðið að merkja leiðina sérstaklega með stikum til þess að bæta öryggi göngufólks og vernda svæðið. Verkefnið var umfangsmikið þar sem um 8 km krefjandi gönguleið er að ræða. Landverðir skipulögðu verkefnið og fengu liðsinni frá öflugum hópi björgunarsveitamanna frá Björgunarfélaginu Blöndu og erlendum sjálfboðaliðum á vegum Umhverfisstofnunar.

13. ágúst 2021

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Ósland staðfest

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn Ósland var staðfest. Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Ósland er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við sveitarfélag og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins.

23. ágúst 2021

Samráðskerfi fyrir almenning

Sökum ríkrar skyldu Umhverfisstofnunar við að leita eftir samráði, og ánægju með Samráðsgátt stjórnvalda, var samráðskerfi sett í loftið. Nauðsynlegt reyndist að smíða kerfið þar sem samráðsgáttin er aðeins fyrir ráðuneyti. Í samráðskerfinu getur almenningur sent inn athugasemdir og skjöl og starfsmenn geta svarað einstaka athugasemdum eða öllum í einu.

1. september 2021

Skaðleg efni víða í daglegu umhverfi

Vandamál tengd ófrjósemi hafa aukist sl. áratugi og áætlað er að ófrjósemi meðal para sé að meðaltali 10-15% á heimsvísu. Ein af ástæðum aukinnar ófrjósemi er snerting okkar við innkirtlatruflandi efni sem finnast víða í okkar daglega umhverfi. Slík efni eru m.a. notuð í plast, þvottaefni, málningu, snyrtivörur, lækningatæki, raftæki, textíl o.fl.

8. september 2021

Endurskoðuð stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Dyrhólaey

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Dyrhólaey var endurskoðuð í september 2021. Dyrhólaey hefur um langa hríð verið vinsæll viðkomustaður ferðafólks. Með stjórnunar- og verndaráætluninni er stefnt að því að standa vörð um og efla jákvæða ímynd svæðisins. Í áætluninni er lögð fram stefnumótun til 10 ára, ásamt hlaupandi aðgerðaáætlun til þriggja ára.

27. september 2021

Aðgerðaráætlun gegn matarsóun kom út

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á fjölda aðgerða í nýrri aðgerðaráætlun gegn matarsóun. Stofnunin ber ábyrgð á að koma á reglubundnum mælingum á matarsóun og rannsaka orsakir matarsóunar á heimilum. Nýta þarf fjölbreyttar aðferðir til að veita almenningi stuðning við að draga úr matarsóun og koma upplýsingum á framfæri.

27. september 2021

Tillaga að fyrirmælum um úrbætur vegna umhverfistjóns á Hofsósi

Umhverfisstofnun lagði fram tillögu að fyrirmælum um úrbætur umhverfistjóns vegna bensínmengunar frá eldsneytistanki N1 ehf. á Hofsósi. Fyrirmælin byggðu á tillögum úr úrbótaáætlun sem verkfræðistofan Verkís hf. vann fyrir hönd N1 ehf.

1. október 2021

Samráð við börn og unglinga í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli

Í vinnu við endurskoðun á stjórnunar- og verndaráætlun Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls var víðtækt samráð við hagsmunaaðila. Einn hópur hagsmunaaðila er unga fólkið í Snæfellsbæ sem hafði margt fram að færa um stefnumótun og framtíðarsýn þjóðgarðsins á fundum sem Umhverfisstofnun hélt með þeim í október 2021.

29. október 2021

Breytt fyrirkomulag rjúpnaveiða

Breyting var gerð á fyrirkomulagi rjúpnaveiða haustið 2021. Veiðar voru heimilar fimm daga í viku, frá föstudegi til þriðjudags á tímabilinu 1. - 30. nóvember. Nýlunda var að ekki mátti hefja veiðar fyrr en kl. 12:00 þá daga sem heimilt var að veiða og skyldi veiði eingöngu standa meðan birtu nyti.

29. október 2021

Nýtt starfsleyfi fyrir Rio Tinto á Ísalandi

Umhverfisstofnun gaf út nýtt starfsleyfi fyrir Rio Tinto á Íslandi. Ákvæði um þynningarsvæði afnumið og er það nýmæli í útgáfu starfsleyfis fyrir álver á Íslandi.

2. nóvember 2021

Sérfræðingar Umhverfisstofnunar í fyrsta sinn á COP

Hlutverk fulltrúa Umhverfisstofnunar á COP26 var að sækja fundi sem snúa að tæknilegum útfærslum losunarbókhalds ríkja, með sérstaka áherslu á gagnsæi og áreiðanleika.


Aðkoma sérfræðinga frá hverju landi er nauðsynleg því mikið er í húfi að losunarbókhald allra ríkja sé samanburðarhæft.

5. nóvember 2021

Áhersla á loftslagsstefnur á morgunfundi Grænna skrefa

Þátttakendur Grænna skrefa var boðið á morgunfund þar sem lögð var áhersla á loftslagsstefnur. Stofnunum ríkisins var gert að setja sér loftslagsstefnu fyrir lok árs 2021.


Á fundinum var fjallað um skipulagningu umhverfisvænni viðburða, verkefnakistu loftslagsvænni sveitarfélaga, ábyrga kolefnisjöfnun og reynslusögur frá þátttakendum í verkefninu.

12. nóvember 2021

Nýtt námsefni um hafið fyrir grunnskólabörn

Umhverfisstofnun gaf út námsefni fyrir yngstu bekki grunnskóla um áhrif hafsins á líf þeirra og þeirra áhrif á hafið. Verkefnið var styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og var unnið í samvinnu við Landvernd og Menntamálastofnun. Yfirskrift verkefnisins er: Hreint haf – Plast á norðurslóðum

10. desember 2021

Friðun æðplantna, mosa og fléttna

Friðlýsing æðplantna, mosa og fléttna tók gildi 2. desember 2021. Um er að ræða 47 tegundir æðplantna, 45 mosa og 62 fléttur sem eiga það allar sameiginlegt að vera fágætar á landsvísu. Markmið með friðuninni er að vernda og viðhalda þessum fágætu tegundum ásamt náttúrulegu gróðurfari og varðveita líffræðilega fjölbreytni í náttúru Íslands.

16. desember 2021

Ástand áfangastaða batnar

Af 148 áfangastöðum sem voru metnir árið 2021 fengu 43% einkunn yfir 8 af 10 mögulegum. Það eru áfangastaðir sem geta vel tekið á móti gestum án neikvæðra áhrifa á umhverfið.

20. desember 2021