Metfjöldi Grænna skrefa stigin á árinu

Aldrei fyrr hafa jafn mörg Græn skref verið stigin eins og árið 2021, eða 444 talsins. Til samanburðar voru 557 skref stigin á árunum 2014-2020. Þessa miklu aukningu má rekja til nokkurra þátta; vitundarvakningar í umhverfis- og loftslagsmálum og almenns áhuga á að gera betur í þeim efnum, aukinnar áherslu Umhverfisstofnunar og stjórnvalda á málaflokkinn og þess að verkefnið hefur breyst úr því að vera valkvætt og yfir í að vera hluti af rekstri allra ríkisaðila. Það er hluti af aðgerðaráætlun loftslagsstefnu Stjórnarráðsins, sem samþykkt var árið 2019, að allir ríkisaðilar skuli fara í gegnum Grænu skrefin fimm. Auk þess skulu allir ríkisaðilar setja sér loftslagsstefnu með mælanlegum markmiðum, og tímasettum aðgerðum. Til að styðja við þessa vinnu hefur vinnan við loftslagsstefnugerð verið samtvinnuð Grænu skrefunum og ríkisaðilar fá þannig heildstæðar leiðbeiningar og stuðning við að sinna lögbundnum skyldum sínum í loftslagsmálum og umhverfisstarfi.

Samdráttur í losun ríkisstofnana

Það er ánægjulegt að sjá árangur Grænna skrefa í ríkisrekstri þegar litið er á samdrátt í losun í Grænu bókhaldi ríkisstofnana:

  • Seglin drógust saman í innkaupum, samgöngum og orkunotkun.

  • Meðvitund um umhverfismál jókst innan vinnustaða.

  • Örugg skref voru stigin í átt að markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsaloftegunda ríkisaðila.


444 græn skref á árinu

Árið 2021 voru 444 græn skref stigin af vinnustöðum ríkisins um allt land. Að baki hverju skrefi sem stigið er liggja á bilinu 25-40 aðgerðir sem farið hefur verið í, stórar sem smáar.

Sem dæmi um aðgerðir má nefna:

  • Notkun orkusparandi stillinga á raftækjum

  • Mælingu á matarsóun

  • Uppsetningu rafhleðslustöðva fyrir bifreiðar

  • Kröfur um minna af umbúðum frá birgjum

Skrefin sem tekin voru á árinu skiptust þannig niður:

75 loftslagsstefnur í höfn

Yfirferð á loftslagsstefnum og aðgerðaráætlunum ríkisaðila eru í höndum starfsfólks Grænna skrefa og sérstök áhersla var lögð á fræðslu um loftslagsstefnugerð árið 2021. Á árinu höfðu 75 ríkisaðilar skilað loftslagsstefnu sinni til Umhverfisstofnunar.


Jákvæð áhrif út í samfélagið

Einn af styrkleikum Grænu skrefanna er að verkefnið hefur mikil áhrif út fyrir vinnustaðina sem taka þátt í verkefninu. Ríkisstofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins eru stórt hreyfiafl í samfélaginu og með þátttöku í Grænum skrefum hafa ríkisaðilar áhrif á þjónustuaðila sína og með aukinni eftirspurn hafa þau orðið til þess að framboð á umhverfisvænni vörum og þjónustu hafa stóraukist.

Tæplega 18.000 starfsmenn starfa á vinnustöðum sem eru virkir þátttakendur í Grænum skrefum og þetta starfsfólk tekur þekkinguna á umhverfismálum með sér heim og gárar þannig vatnið.

Fjölbreytt verkefni og viðburðir a vegum Grænna skrefa

Auk þess að vera í beinu sambandi við tengiliði Grænna skrefa, yfirfara gátlista, fara í úttektir og útdeila skrefum sinnir starfsfólk Grænna skrefa ýmsum verkefnum sem styðja við verkefniskrefin.

Stærsti viðburðurinn sem haldinn var í tengslum við Grænu skrefin á árinu var morgunverðarfundursem fór fram þann 5. nóvember á Grand hótel. Þar tóku þátt yfir 100 manns bæði á staðnum og í streymi. Þema fundarins var loftslagsstefnugerð og tóku þátttakendur virkan þátt í hugmyndavinnu. Morgunfundurinn var auk þess nýttur sem fordæmi fyrir umhverfisvænan viðburð, þar sem leiðbeiningum Grænna skrefa var fylgt í hvívetna.

Fleiri fjarfundir voru haldnir. Boðið var upp á upplýsingaborð þar sem tengiliðir höfðu aðgang að starfsfólki til ráðgjafar. Á aðventunni stóð starfsfólk teymis hringrásarhagkerfis fyrir opnum netfyrirlestri um umhverfisvænna jólahald.

Starfsfólk Grænna skrefa vann 7 mínútna kynningarmyndband um verkefnið. Myndbandið er tilvalið að sýna öllu starfsfólki þegar vinnustaður er að hefja ferlið.


Áfram veginn

Árið 2021 var það stærsta í sögu Grænna skrefa í ríkisrekstri, en það var einnig árið sem styrkleikar verkefnisins komu hvað skýrast í ljós.

Á árinu tókst fjölda ríkisaðila að innleiða á áhrifaríkan hátt umhverfisstjórnunarkerfi í rekstur sinn, undir handleiðslu starfsfólks Umhverfisstofnunar. Lögð var áhersla á fræðslu, stuðning og góðar boðleiðir og afraksturinn er metnaðarfyllra og víðtækara umhverfisstarf ríkisaðila en áður hefur verið.

Eins og gildir um allt umhverfisstarf eru Grænu skrefin lifandi verkefni sem skiptir máli að þróist áfram, en staðni ekki.