Ávarp

Sigrún Ágústsdóttir - forstjóri

Viðbragð og þjónusta
Landvarsla var sett upp á örskömmum tíma þegar gos hófst í Fagradalsfjalli. Opinberar stofnanir þurfa ekki að vera svifaseinar. Nauðsynlegt er að geta brugðist við í þjónustu hins opinbera þegar á þarf að halda. Lífið er alltaf á undan skipulaginu og þannig á það að vera. Þetta reddast hugarfarið er ekki alslæmt. Samstarf viðbragðsaðila á Íslandi er allajafna gott og fyrir það ber að þakka. Það segir okkur líka það að þegar markmiðin eru skýr og verðug leggjast allir á eitt.
Umhverfisstofnun sinnir einnig viðbragðshlutverki þegar bráðamengun verður á hafi úti. Þar reynir á samstarf við Landhelgisgæsluna, Samgöngustofu og fleiri aðila. Nauðsynlegt er að æfa slíkt viðbragð en þess er skemmst að minnast að grænlenskt fiskiskip strandaði við Vatnsleysuströnd í desember síðastliðinn. Freyja nýtt varðskip Landhelgisgæslunnar náði til allra heilla að draga skipið af strandstað og til hafnar. Við heyrum ekki alltaf af því hvað gerist bak við tjöldin en vettvangsstjóri Umhverfisstofnunar var tilbúin að taka stjórn á vettvangi. Aðgerðastjóri hafði samband við sveitarstjórnaryfirvöld og lét senda mengunarvarnabúnað á staðinn enda mikið í húfi ef olía byrjar að leka í sjóinn.
Þjónusta hefur verið aukin hvað varðar opna fyrirlestra Umhverfisstofnunar. Fræðsla um hættueiginleika efna og vistvænan lífsstíl hefur verið vinsæl og getur fólk sótt efnið á vefinn þegar hentar. Fræðsla um náttúruverndarsvæði er lifandi á samfélagsmiðlum allt árið og við náttúruperlurnar sjálfar yfir sumartímann.
Áherslur ríkisstjórnar hverju sinni birtast í verkefnum Umhverfisstofnunar. Loftslagssérfræðingar stofnunarinnar lögðu sitt af mörkum á COP26 í Glasgow í nóvember sl. Gagnsæi í útreikningum losunar er lykilatriði til að skapa traust. Traust skapar samvinnu og ábyrgð í loftslagsmálum. Miðluðu fulltrúar Umhverfisstofnunar af sinni þekkingu á losunarbókhaldi á ráðstefnunni. Eingöngu með alþjóðlegri samvinnu tekst að vinna gegn loftslagsvánni.
Umhverfisstofnun hefur auglýst störf um allt land í mörg ár og skarað fram úr hvað varðar fjölda auglýstra starfa utan Reykjavíkur. Þannig eltum við hæfnina. Starfsmannafundir eru haldnir á netinu eða þannig að allir koma saman á einum stað. Er þetta ekkert mál? Alls ekki en að missa af frábærum starfmanni sem kannski býr eða vill búa á Patreksfirði, það viljum við ekki.
Hér á eftir er fjallað um Grænu skrefin sem endurspegla áherslu á hringrásar-hagkerfið og loftslagsmál, átak í friðlýsingum og fleiri verkefni. Ég er þakklát fyrir alla daga þar sem fagfólkið okkar skilar góðri þjónustu fyrir náttúruna og þig.
Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunar

Eldgos í Fagradalsfjalli

Eldgos hófst í Fagradalsfjalli 19. mars 2021. Vinna Umhverfisstofnunar í tengslum við gosið hófst nokkrum vikum fyrr…

Verkefni í eldgosi

Mælingar á loftgæðum tryggðu upplýsingar til almennings

Landverðir stóðu vörð um viðkvæma náttúru

Leyfisveitingar og ótal verkefni bak við tjöldin

11.700

Gestir á einum degi

665.000

Gestir á einu ári

Metfjöldi Grænna skrefa á árinu

Verkefnið Græn skref í ríkisrekstri tók vaxtarkipp á árinu og markið var sett hátt:

Að styðja sem flesta ríkisaðila í gegnum öll Grænu skrefin.

Sérstök áhersla var lögð á fræðslu um loftslagsstefnugerð til þess að til þess aðstoða stofnanirnar við að setja sér tímasett og mælanleg markmið um samdrátt í losun.

Til að bregðast við átaksverkefninu voru þrír starfsmenn ráðnir í tímabundið.

Græn skref lykiltölur

16.364

Fjöldi starfsmanna sem tóku þátt í Grænu skrefunum á árinu

41

Fjöldi stofnana sem skráðu sig í Grænu skrefin á árinu

36,8%

Samdráttur á heildarlosun per stöðugildi milli áranna 2020 og 2021

444

Fjöldi skrefa sem stigin voru á árinu

20.296

Fjöldi aðgerða sem liggja að baki skrefunum á árinu

Víðtæk áhrif Grænna skrefa

Ríkisstofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins eru stórt hreyfiafl í samfélaginu. Ríkisaðilar sem taka þátt í Grænu skrefunum gera kröfur til þjónustuaðila sinna um bætt umhverfisstarf. Þannig ganga ríkisaðilar fram með góðu fordæmi.

Grænu skrefin hafa einnig áhrif á einstaka starfsfólk. Um 18.000 manns starfa á vinnustöðum sem taka þátt í Grænum skrefum. Þetta starfsfólk tekur þekkingu og breyttar venjur með sér heim og út í samfélagið.

Átak í friðlýsingum

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar 2018-2021 var kveðið á um átak í friðlýsingum. Fulltrúar frá Umhverfisstofnun og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu hafa unnið að verkefninu.

Í heildina hafa 14 ný svæði verið friðlýst, 8 svæði voru friðlýst gegn orkuvinnslu og 5 friðlýst svæði stækkuð, samtals 27 svæði. Þar af voru 15 svæði friðlýst árið 2021.

Nýfriðlýst svæði árið 2021 voru Látrabjarg, Fitjaá, Lundey, Stórurð, Gerpissvæðið og Drangar, sem er fyrsta friðlýsta óbyggða víðernið.

Tímalína friðlýsinga

Látrabjarg friðlýst

Látrabjarg á sunnanverðum Vestfjörðum er eitt stærsta fuglabjarg Evrópu og flokkast sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Þar verpa margar tegundir fugla, þar á meðal tegundir sem flokkast sem ábyrgðartegundir Íslendinga og eru á válista. Lífríkið í sjónum við Látrabjarg er afar fjölbreytt og mikilvægt fæðusvæði varpfugla í bjarginu.

Látrabjarg var friðlýst sem friðland í mars árið 2021.

Friðlandið er um 37 km2 að stærð og mörk friðlandsins ná tvo kílómetra út í sjó frá ystu mörkum á landi.

Áhersla á störf um allt land

Umhverfisstofnun auglýsir öll störf sérfræðinga þannig að umsækjendur geta valið um staðsetningu á starfsstöðvum stofnunarinnar um allt land. Nokkur störf eru svæðisbundin.

Á árinu 2021 voru níu störf sérfræðinga auglýst til umsóknar. Sjö þeirra voru auglýst með vali um starfsstöð. Tvö störf voru bundin starfsstöð, annað starfsstöð stofnunarinnar í Reykjavík og hitt starfsstöðinni Egilsstöðum.

Umhverfisstofnun starfar á níu starfsstöðvum og því fjölbreytt val fyrir umsækjendur. Það er einnig frábært tækifæri fyrir stofnunina að geta valið besta einstaklinginn til starfa óháð staðsetningu.

Mikill vöxtur var á starfsstöð Umhverfisstofnunar á Akureyri á árinu. Í lok árs störfuðu þar 12 manns.

Fræðsla starfsfólks í lykilhlutverki

Nýliðaþjálfun Umhverfisstofnunar stuðlar að því að nýju starfsfólki gangi vel að komast inn í starfið og líði vel á vinnustaðnum. Nýliðaþjálfunin veitir starfsfólki gott upphaf að vonandi farsælum ferli hjá stofnuninni. Nýliðaþjálfunin var efld enn frekar á árinu.

Endurmenntun og fræðsla eru lykilþættir í starfsemi Umhverfisstofnunar og fræðsluþátturinn hefur verið aukinn til muna.

Við hugum vel að aðlögun að starfslokum vegna aldurs. Boðið er upp á námskeið og sveigjanleg starfslok að óskum hvers og eins. Þekkingaryfirfærsla er í forgrunni hjá okkur þegar líður að þessum tímamótum, en einnig að aðdragandinn sé þægilegur og aðgengilegur.

22

Námskeið innanhúss

827

Þátttakendur á námskeiðum samanlagt