Umhverfisskýrsla

Eins og áður leggur Umhverfisstofnun áherslu á að vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum og halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi stofnunarinnar í lágmarki. Stefnt er að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda en jafnframt að samdrætti umhverfisspors í víðara samhengi.

Árið 2021 var eins og árið 2020 óvenjulegt þegar kemur að innra umhverfisstarfi vegna heimsfaraldurs, það var samt sem áður komin ákveðin rútína í starfshópinn sem var að mörgu leyti búinn að venjast breyttu ástandi. Starfsfólk stofnunarinnar starfaði áfram mikið í fjarvinnu að heiman og stór hluti funda voru teknir á Teams. Samkomutakmarkanir og sóttvarnir höfðu áfram mikil áhrif á ferðir starfsfólks og flugferðir voru því færri en almennt gengur og gerist. Á árinu voru áfram tekin framfaraskref í stafrænni stjórnsýslu og má þar helst nefna að allar undirskriftir urðu rafrænar en það þýðir að ekki þarf lengur að prenta útsend bréf.

Loftslagsbókhald

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi stofnunarinnar jókst árið 2021 ef miða á við árið 2020 og er til að mynda meiri en árið 2015. Jákvæð áhrif heimsfaraldurs á losun hafa því dvínað.

Stöðugt er unnið að umbótum á mati á losun svo hækkun á tölum hefur ekki alltaf þýtt aukna losun, en nákvæmnin er sífellt meiri. Hafa ber í huga að losun frá akstri hefur verið reiknuð út frá magni eldsneytis í stað vegalengda og eru því niðurstöður losunar frá akstri mun nákvæmari árin 2019, 2020 og 2021 en frá árunum þar á undan.

Losun vegna aksturs eykst

Akstur er stóri þátturinn í losun frá Umhverfisstofnun. Losun frá akstri hefur aldrei verið meiri síðan mælingar hófust en hún hefur vaxið ár frá ári frá 2015 og má meðal annars rekja það til aukinna umsvifa í landvörslu og mengunareftirliti en aukin nákvæmni í mælingum hefur einnig áhrif eins og áður sagði. Stefnan er að færa landvörslu yfir á rafbíla og var meðal annars tekið stórt skref 2020 í rafbílavæðingu en ætlunin er að ganga lengra í þeim efnum á næstu árum.

Losun vegna flugs minnkar

Losun frá flugi minnkar örlítið miðað við fyrra ár, en losun frá flugi er hinn stóri losunarþátturinn í losunarbókhaldi Umhverfisstofnunar. Heildarlosun frá flugi árið 2020 var 12.612 CO2 (kg) en var árið 2021 12.143 CO2 (kg) sem þýðir að heildarlosun dregst aðeins saman. Hins vegar eykst hún lítilega miðað við stöðugildi. Innanlandsflug stofnunarinnar jókst á milli ára og á sama tíma varð samdráttur í millilandaflugi. Í heildina dró því úr losun vegna flugs á milli ára. Ef horft er til losunar á stöðugildi hefur dregið úr losun á hverju ári frá 2016, en jókst aðeins í ár. Til að viðhalda þessari jákvæðu þróun eru síauknar kröfur gerðar varðandi vægi þeirra funda sem sóttir eru erlendis og aukin áhersla lögð á að notast sé við fjarfundi eins og kostur er.

Samgöngusamningar

Í viðleitni til að hvetja starfsfólk til að nýta sér umhverfisvæna samgöngumáta býður stofnunin upp á samgöngusamninga. Árið 2020 dróst fjöldi þeirra sem gerði samning mikið saman, líklega vegna heimavinnu, en fjöldi sem hlutfall af stöðugildum jókst aftur verulega árið 2021. Af heildarfjölda starfsfólks, voru 56 með samning, eða 57,3 %.

Tvær gerðir samninga voru í boði árið 2021 varðandi samgöngur til og frá vinnu – fyrir þá sem notuðu strætó og fyrir þá sem hjóluðu eða gengu. Einnig var hægt að gera samning sem gilti aðeins yfir sumartímann. Árið 2022 voru teknar upp nýjar útgáfur af samgöngusamningum í þeirri von að hlutfall starfsfólks sem gerir samninga aukist enn frekar.

Samgöngukönnun

Umhverfisráð gerði í samvinnu við teymi losunarbókhalds samgöngukönnun meðal starfsmanna. Þar kom meðal annars fram að svarendur fóru að meðaltali á hjóli eða fótgangandi 1,9 dag á viku á sumrin en 0,9 daga á veturnar. Til samanburðar má nefna að starfsmenn fóru að meðaltali 2 sinnum á viku í bíl í vinnuna yfir sumartíman, en 2,8 sinnum í viku yfir vetrartíman. Einnig kom fram að þeir sem ferðast á bíl nýta í 76% tilfella bensín eða dísil, en 14% tilfella rafmagn, 4% metan og 6% annan orkugjafa sem líklega á við um hybrid bíla. Meðal vegalengd starfsmanna frá heimili til vinnu er samkvæmt niðurstöðum spurningakannanar er 5,3 km.

Úrgangur

Úrgangstölur héldu áfram að lækka á árinu 2021, einungis 26 kg á stöðugildi árið 2021 samanborið við 35 kg árið 2020. Mikið var um fjarvinnu á árinu á meðal starfsfólks svo áætla má að úrgangslosun hafi að einhverju leyti færst yfir á heimili starfsmanna.

Stöndum okkur enn betur í að flokka

Endurvinnsluhlutfall er hátt hjá stofnuninni og var árið 2021 94,7 % sem er bæting frá árinu 2020 og jafnframt besti árangur síðan 2011.

Prentpappír og vottanir

Pappírsnotkun vegna útprentunar stendur nokkurn veginn í stað á milli ára og við prentuðum út 4,3 kg af pappír á stöðugildi á árinun 2021. Við eigum hins vegar möguleika á því að bæta okkur. Á árinu 2021 voru teymi beðin um að greina pappírsnotkun sína og skoða hvar hægt væri að draga saman. Áfram er allur prentpappír sem notaður er í stofnuninni vottaður, en bæta þarf hlutfall umhverfisvottaðra prentsmiðja sem við skiptum við. Það hlutfall hefur dregist verulega saman. Það verður verkefni nýs Umhverfisráðs að kanna ástæðuna og leita úrbóta.

Græn skref í innra starfi Umhverfisstofnunar

Verkefnið Græn skref byggir að mestu á umhverfisáhrifum af skrifstofustarfsemi og hefur Umhverfisstofnun verið með öll fimm Grænu skrefin frá árinu 2016. Nú hafa skrefin verið uppfærð svo það er tími til að fara í gegnum þau aftur. Heimsfaraldur setti hér áfram strik í reikninginn í innleiðingu nýs gátlista Grænna skrefa en ýmis undirbúningsvinna fór vel af stað. Meðal annars var gerð kostnaðaráætlun á því hvað aðgerðir Grænna skrefa gætu kostað fyrir starfstöðvar Umhverfisstofnunar auk þess sem samtal fór af stað við stöðvarstjóra um framhaldið. Þetta samtal varð meðal annars til þess að keyptir voru hjólabogar fyrir Suðurlandsbraut. Nýtt myndband Grænna skrefa var frumsýnt starfsfólki og farið var yfir stöðuna og næstu skref á starfsmannafundi. Allt starfsfólk var hvatt til að taka virkan þátt í að innleiða aðgerðir.

Matarsóunarmælingar

Ein af aðgerðum Grænna skrefa er að gerðar séu matarsóunarmælingar í minnst eina viku á ári. Umhverfisráð fór í þessa vinnu og mældi sóunina í átta daga á starfstöð sinni að Suðurlandsbraut um mánaðamótin september/október 2021. Matarsóunin var talsvert mikil, en af þeim mat sem kom inn í húsið var 29% sendur til baka til mötneytisþjónustu ósnertur, af þeim mat sem hins vegar fór á diskana voru það að meðaltali 1,18 kg sem fóru í ruslið á dag. Þetta eru svipaðar niðurstöður og síðast þegar mælingar voru gerðar í maí 2018 þegar matarsóun af þeim mat sem var pantaður inn var 33% og matarsóun af diskum var 1,04 kg. Þetta eru samt verri niðurstöður en árin 2015, 2016 og 2017 en þá voru mælingar aðeins ólíkar.

Umhverfisráð hóf undirbúning að ýmsum aðgerðum til að sporna gegn þessari miklu matarsóun. Meðal annars breytingu á matarskráningarkerfi sem kom í gagnið 2022 en þar var bætt við þeim möguleika að skrá sig sérstaklega bara í súpu og salat. Einnig var umhverfisvænni maturinn færður framar á matseðli í takt við kenningar í félagssálfræði og aðgerðir Grænna skrefa.

Umhverfisfræðsla

Á árinu lagði stofnunin sem fyrr mikla áherslu á beina fræðslu og hvatningu til starfsfólks til að gera betur í umhverfismálum almennt. Starfsfólk fékk meðal annars kynningu innanhúss á tengslum loftgæða og loftslagsbreytinga , um það hvernig halda má umhverfisvænni jól og um efnin á heimilinu . Vefnámskeið voru haldin um vistakstur, um íslenska fugla og jarðfræði og jarðminjar. Umhverfismolar birtust reglulega á frétta- og tilkynningasíðu Fróða og m.a. var starfsfólk hvatt til þess að taka þátt í plokkdeginum og með fræðslu að spara/minnka orkunotkun yfir hátíðarnar. Fjallaprógrammi UST var hrint úr vör í árslok.

Hjólað í vinnuna

Umhverfisstofnun lenti í þriðja sæti í sínum flokki í keppninni „Hjólað í vinnuna“ árið 2021. Alls tóku 64 vinnustaðir þátt í okkar flokki, svo árangur okkar er mjög góður. Þátttaka starfsmanna var góð en um 63 starfsmenn voru skráðir þetta árið og fjölmargir af þeim tóku þátt alla keppnisdagana sem voru 13.