Ný sameiginleg starfsstöð á Mývatni

Í byrjun árs 2001 festi ríkissjóður kaup á fasteigninni Gíg í Mývatnssveit til að skapa framtíðaraðstöðu fyrir starfsemi Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs, Landgræðslunnar og Rannsóknarmiðstöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ). Töluvert samstarf og samskipti eru milli þessara stofnana og því bæði hagur og tækifæri fólgin í því að sameinast á einum stað.

Á Gíg var hótelrekstur um tíma og þar áður var Skútustaðaskóli starfræktur í húsnæðinu. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á húsnæðinu og starfsaðstaða til fyrirmyndar. Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra opnaði starfsstöðina formlega í maí á síðasta ári.


Skapa nýsköpunarumhverfi

Á Gíg starfa tveir heilsársstarfsmenn á vegum Umhverfisstofnunar, svæðissérfræðingur og yfirlandvörður og yfir sumarmánuðina starfa fjórir til fimm landverðir þar að auki. Aðstaða er fyrir landverði í húsnæðinu sem er mikil kostur þegar ráða þarf inn landverði tímabundið.

Húsnæðið býður upp á nægt rými og markmiðið er að skapa tækifæri með því að sameina á einum stað starfsaðstöðu nokkurra stofnana og skapa nýsköpunarumhverfi í sveitarfélaginu.

Sveitarfélagið mun nýta hluta af húsnæðinu undir atvinnuskapandi nýsköpun og er Þekkingarnet Þingeyinga nú þegar með aðstöðu í Gíg.


Sameiginleg gestastofa á næsta ári

Stóra verkefnið fram undan er uppbygging nýrrar gestastofu á Gíg og nú stendur yfir samkeppni um sýningu þar. Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður standa saman að verkefninu þar sem um er að ræða sameiginlega gestastofu þessara stofnanna.

Vonir standa til að hægt verði að opna sýningu gestastofunnar á seinni hluta næsta árs þar sem rauði þráðurinn verður verndun og vísindi.