Svanurinn í sókn

Það er margt sem spilar inn í þegar við horfum yfir síðastliðið ár og þann fjölda sem við sjáum í umsóknum og veittum Svansleyfum.

Neytendur treysta ekki grænum yfirlýsingum

Almenningi þykir í auknum mæli mikilvægara að geta treyst yfirlýsingum sem fyrirtæki senda frá sér um þeirra eigin umhverfiságæti. Þetta styður nýleg neytendakönnun Svansins á Norðurlöndunum.

Hún sýnir einnig að neytendur telja að sjö af hverjum tíu fyrirtækjum ýki yfirlýsingar um hversu umhverfisvænar vörur þeirra séu. Rúmlega helmingi neytenda finnst erfitt að átta sig á hvaða vörur séu sannarlega umhverfisvænar.


Tæplega 7 af 10 (68%) telja að fyrirtæki ýki oft hversu umhverfisvænar þeirra vörur séu

Samkvæmt könnuninni kemur fram að íslenskir neytendur eru meðvitaðir um hættuna af grænþvotti og hafa litla þolinmæði fyrir því að vörur eða þjónusta séu markaðssettar undir fölsku eða innihaldslitlu grænu flaggi.

Aðeins 18% neytenda á Norðurlöndunum treystir einhliða yfirlýsingum fyrirtækja eða merkingum um umhverfiságæti sem fyrirtækin búa sjálf til. Traust til opinberra umhverfismerkja eins og Svansins eykst á sama tíma enda liggur að baki vottuninni áreiðanlegt vottunarferli byggt á faglega sértækum viðmiðum.

Íslendingar þekkja Svaninn

Þekking Íslendinga á Svaninum hefur aukist jafnt og þétt síðan mælingar hófust. Árið 2022 náði þekking Íslendinga á Svaninum sögulegu hámarki og mælist nú um 93%.

Margar ástæður liggja að baki þessari aukningu. Í lok árs 2020 lauk Krónan t.a.m. við Svansvottun á öllum sínum verslunum. Það þýðir aukin nálægð og sýnileiki merkisins fyrir hinn almenna neytenda.

Fjölbreytt þjónusta og framleiðsla vottuð

Til þess að vara eða þjónusta geti hlotið Svansvottun verður norræni Svanurinn að hafa mótað kröfur fyrir viðkomandi vöru- eða þjónustuflokk.

Svansleyfishafar á Íslandi er samsettur af fjölbreyttum hópi fyrirtækja sem vilja gera betur og eru drifin áfram af hugsjón og afli til breytinga í rekstri sínum.

Það eru margir þættir sem spila saman og hafa leitt til aukninga í umsóknum um Svansvottun.

Í október 2022 hóf Svanurinn formlegt samstarf við IÐAN fræðslusetur. Þar var sett á laggirnar námskeið um Svansvottuðar nýbyggingar og tók Svanurinn þátt í bransadögum fræðslusetursins. Í framhaldinu verður skoðað hvaða námskeið henta fyrir ráðgjafa og áhugasama um Svansvottun í mismunandi geirum atvinnulífsins.

Ánægjulegt er að íslenskir framleiðendur sjái í auknum mæli hag í að Svansvotta sína vöruframleiðslu og að íslensk nýsköpunarfyrirtæki í efnaiðnaði setja umhverfismál í forgrunn.

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn ehf. hefur verið með kröfur Svansins til hliðsjónar frá upphafi vöruþróunar sinnar. Það skilar sér í því að vörur sem fyrirtækið setur á markað eru tilbúnar með Svansvottun frá fyrsta degi.


Yfirlit yfir alla innlenda Svansleyfishafa

Grænt stökk í mannvirkjageiranum

Undanfarin misseri hefur borið við samtakamætti innan mannvirkjageirans. Fyrsta byggingin á Íslandi hlaut Svansvottun 2017. Síðan þá hefur verið stígvaxandi aukning. Verkefnin voru í upphafi mikið til drifin áfram af einkageiranum en undanfarið hafa verkefni á vegum ríkis og sveitafélaga aukist töluvert m.a. með tilkomu grænna skuldabréfa og annarra ívilnanna.

Skýr áhugi á að gera betur og taka betri ákvarðanir hefur átt sér stað bæði hjá framkvæmdaraðilum. Stefnubreyting ríkis og sveitarfélaga hefur einnig stutt við þróunina sem er svipuð þeirri sem hefur átt sér stað undanfarin ár á hinum norðurlöndunum það er því ánægjulegt að sjá að þróunin á Íslandi er sambærileg, ef ekki hraðari á vissum sviðum.


Mynd: Við vottun bygginga í nýjum miðbæ Selfoss. Leó Árnason stjórnarformaður Sigtúns Þróunarfélags, Elva Rakel Jónsdóttir framkvæmdastjóri Svansins á Íslandi og Gylfi Gíslason framkvæmdastjóri JÁVERK

Byggjum grænni framtíð er samstarfsverkefni stjórnvalda og hagaðila byggingariðnaðarins um vistvænni mannvirkjagerð. Hún á meðal annars rætur sínar að rekja til aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er með ábyrgð á verkefninu en Umhverfisstofnun er virkur þátttakandi í verkefnastjórn þess, ásamt öðrum hagaðilum. Í júní 2022 var gefinn út Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð sem inniheldur 74 aðgerðir til að draga úr losun í mannvirkjageiranum og ber Umhverfisstofnun ábyrgð á fimm aðgerðum sem snúa að umhverfisvottunum bygginga og fræðslu til opinberra aðila og einkageirans.

Það er mikil vakning í geiranum, en erum þó ennþá stödd á toppinum á ísjakanum og það eru mörg verkefni sem liggja fyrir.

Umhverfisstofnun er umsjónaraðili Svansins á Íslandi og vinnur náið með skrifstofum Svansins á öllum Norðurlöndunum.

Slagorð Svansins er: Erfitt að hljóta – auðvelt að njóta!