Umhverfisskýrsla

Umhverfisstofnun leggur áherslu á að vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum og halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi stofnunarinnar í lágmarki. Stefnt er að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda en jafnframt að samdrætti umhverfisspors í víðara samhengi.

Árið 2022 var fyrsta árið eftir heimsfaraldur þar sem starfsemin hefur fæst í nokkuð eðlilegt horf. Við höfum samt tekið með okkur ýmsan lærdóm frá þessum tíma og má þar nefna að möguleikin að vinna í fjarvinnu og taka fjarfundi er meira en var fyrir Covid. Flugið er töluvert minna en fyrir heimsfaraldur og standa vonir til að það haldist enda er markmið stofnunarinnar að draga þar töluvert úr. Skiptimarkaðir festu sig í sessi á árinu og Umhverfisstofnun tókst að sigra Hjólað í vinnuna í sínum flokki!


Loftslagsbókhald

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi stofnunarinnar jókst árið 2022 miðað við árin á undan og við þurfum að gera betur.

Langstærsti hluti losunar kemur eins og árin á undan frá akstri, þrátt fyrir að skipt hafi verið yfir í umhverfisvænni orkugjafa í hluta ferðanna. Þetta skýrist af auknu umfangi starfs landvarða og auknu eftirliti.

Stöðugt er unnið að umbótum á mati á losun svo hækkun á tölum hefur ekki alltaf þýtt aukna losun, en nákvæmnin er sífellt meiri.

Hafa ber í huga að losun frá akstri er nú reiknuð út frá magni eldsneytis í stað vegalengda eins og áður var og eru því niðurstöður losunar frá akstri mun nákvæmari árin 2019, 2020, 2021 og 2022 en árin á undan. Flugið hefur einnig aukist töluvert frá árinu 2021 en er þó enn þá talsvert minna en það var árin fyrir 2019.

Losun vegna aksturs

Akstur er stóri þátturinn í losun frá Umhverfisstofnun. Losun frá akstri hefur að jafnaði vaxið ár frá ári frá 2015 og má meðal annars rekja það til aukinna umsvifa í landvörslu og mengunareftirliti en aukin nákvæmni í mælingum hefur einnig áhrif eins og áður sagði.

Stefnan hefur verið að að færa landvörslu yfir á rafbíla og var meðal annars tekið stórt skref 2020 í rafbílavæðingu. Einnig er þetta stefnan þegar kemur að notkun leigubíla á vegum stofnunarinnar eða bílaleigubíla.

Losun vegna flugs eykst en þó er mikill samráttur miðað við árin fyrir Covid

Losun frá flugi eykst talsvert miðað við fyrra ár, en losun frá flugi er hinn stóri losunarþátturinn í losunarbókhaldi Umhverfisstofnunar.

Heildarlosun frá flugi árið 2021 12.143 CO2 (kg) en var árið 2022 34.420 CO2 (kg) sem þýðir að heildarlosun eykst. Einnig eykst hún miðað við stöðugildi.

Bæði innanlandsflug og millilandaflug stofnunarinnar jókst á ný á milli ára og jókst millilandaflug meira í heildina miðað við innanlandsflug.

Eftir að samkomutakmörkunum var almennt aflétt mátti gera ráð fyrir að losun vegna flugs myndi aukast á ný. Þó að losun vegna flugs hjá stofnuninni hafi aukist þá er jákvætt að hún er samt enn talsvert minni heldur en losun vegna flugs áður en samkömutakmarkanir tóku gildi árið 2020.

Til að viðhalda þessari jákvæðu þróun eru síauknar kröfur gerðar varðandi vægi þeirra funda sem sóttir eru erlendis og aukin áhersla lögð á að notast sé við fjarfundi eins og kostur er. Því þarf að viðhalda eins vel og kostur er á.

Samgöngusamningar

Í viðleitni til að hvetja starfsfólk til að nýta sér umhverfisvæna samgöngumáta býður stofnunin upp á samgöngusamninga.

Árið 2022 varð mikil aukning í að starfsfólk gerði samgöngusamning við stofnunina. Gera má ráð fyrir að enn fleiri bætist við árið 2023 enda hefur styrkurinn hækkað og er nú 10.000 kr á mánuði fyrir þá sem ferðast með umhverfisvænni hætti 4 daga vikunnar.

76,7% starfsmanna gera samgöngusamning.

Úrgangur

Úrgangur sem féll til hjá stofnuninni árið 2022 var tæp 34 kg á hvert stöðugildi, sem er aukning frá 2021 en svipuð niðurstaða og árið 2020. Líklegt er að aukninguna frá 2021 megi fyrst og fremst rekja til þess að fólk sneri aftur úr fjarvinnu sem var ríkjandi í samkomutakmörkunum. Úrgaangsmyndun er töluvert minni en hún var fyrir árið 2019 sem má teljast jákvæð þróun.

Flokkunarárangur

Endurvinnsluhlutfall lækkaði talsvert á milli ára og var árið 2022 tæp 83%. Flokkunarárangurinn var yfirleitt í kringum 90% fyrir 2020 svo ekki er hægt að kenna samkomutakmörkunum um. Hér er því tækifæri til að gera betur.

Prentpappír og vottanir

Pappírsnotkun vegna útprentunar hefur minnkað á milli ára og við prentuðum út 2,8 kg af pappír á stöðugildi á árinun 2022. Dregið hefur mjög úr notkun pappírs m.a. vegna þess að flest bréf og reiknningar frá stofnuninni eru nú send á rafrænan máta. Við eigum hins vegar alltaf möguleika á því að bæta okkur. Áfram er allur prentpappír sem notaður er í stofnuninni vottaður, en bæta þarf hlutfall umhverfisvottaðra prentsmiðja sem við skiptum við. Það hlutfall hefur dregist verulega saman. Það verður verkefni nýs Umhverfisráðs að kanna ástæðuna og leita úrbóta.

Aðgerðir gegn matarsóun skiluðu árangri

Ein af aðgerðum Grænna skrefa sem stofnunin tekur þátt í er að gerðar séu matarsóunarmælingar í minnst eina viku á ári. Umhverfisráð fór í þessa vinnu og mældi sóunina á starfstöð sinni að Suðurlandsbraut fyrri hluta desember. Matarsóun hefur dregist saman en var árið 2022 0,7 kg samanborið við 1,18 kg 2021.

Þetta má þakka miklum metnaði starfsmanns mötuneytisins til að nýta afganga og koma út því sem ekk er borðað, auk þess sem umhverfsráð fékk það í gegn að þeir starfsmenn sem skráðir eru í mat megi taka með sér afganga heim ef eitthvað er eftir í lok hádegisins. Einnig var gerð breyting á matarskráningarkerfi en þar var bætt við þeim möguleika að skrá sig sérstaklega bara í súpu og salat.

Vellukkaðir skiptimarkaðir

Á árinu var fjöldin allur af skiptimörkuðum fyrir starfsfólk. Má þar nefna fataskiptimarkað, búningaskiptimarkaði, afleggjaraskiptimarkað og skógjafaskiptimarkað. Með þessu er starfsfólki gert einfaldara að vera umhverfisvænt í einkalífi sínu á sama tíma og því er einfaldaðir hlutir sem þau þyrftu annars að gera eftir vinnu svosem að redda skógjöfum fyrir Jólasveininn! Bæði umhverfisvænna og dregur úr álagi á starfsfólk.


Hjólað í vinnuna

Umhverfisstofnun sigraði Hjólað í vinnuna í sínum flokki árið 2022. Alls tóku 67 vinnustaðir þátt í þessum flokki svo árangurinn má teljast mjög góður. Á árinu var aðstaða hjólreiðafólks bætt og lagði umhverfisráð áherslu á að fá afslætti hjá hjólaverkstæðum og verslunum. Eins og áður þá voru hjól starfsmanna yfirfarin af DR BÆK og öðrum hjólaviðgerðaraðilum.