Fyrsta vatnaáætlun Íslands var staðfest af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í apríl 2022 og gildir til ársins 2027.

Vatnaáætlun Íslands 2022 - 2027

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, staðfestir fyrstu íslensku vatnaáætlunina / Mynd: Stjórnarráðið

Vatnaáætlunin markar tímamót í innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins á Íslandi. Hún er mikilvægt stýritæki sem rammar inn samvinnu og stefnu stjórnvalda, aðgerðir, vöktun og önnur mikilvæg skref til að stuðla að verndun vatnsauðlindarinnar á Íslandi næstu sex árin (einn vatnahringur).

Samhliða vatnaáætlun er gefin út aðgerðaráætlun og vöktunaráætlun.

Einn vatnahringur og mikilvægar vörður á leið til næstu vatnaáætlunar:

Verndun vatns er samvinnuverkefni

Vatn er mikilvæg auðlind sem þarf að umgangast af virðingu og er það samvinnuverkefni okkar allra að sjá til þess að verndun þess sé tryggð.

Mikilvægt er að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og náttúrulegu ástandi vistkerfa ferskvatns og strandsjávar. Ekki síður er mikilvægt að tryggja gæði og sjálfbæra nýtingu alls vatns.

Heilnæmt vatn er stór hluti af ímynd Íslands um hreina náttúru. Mikilvægi þess að geta sýnt raunverulega fram á gæði vatns og sjálfbæra nýtingu þess fer stöðugt vaxandi. Víða er orðin krafa um að fyrirtæki geti t.d. sýnt fram á þetta við fjárfestingar.


Mikilvægt stýritæki

Vatnaáætlun er mikilvægt stýritæki sem samræmir stjórnun vatnamála svo hægt sé að ná settum markmiðum um vatn.

Afmörkun vatns í vatnshlot og flokkun þess í gerðir, er forsenda stjórnar vatnamála.

Þegar vatnshlot eru í hættu eða í óvissu um að ná ekki settu umhverfismarkmiði þarf að koma á aðgerðum og vöktun til að eyða óvissunni eða staðfesta ástandið.

Almenna reglan er að vatnshlot nái settu umhverfismarkmiðum innan tímaramma vatnahringsins (6 ára).

Staða vatns á Íslandi

Vatni á landsvísu hefur verið skipt upp í 2714 vatnshlot:

  • 1866 straumvatnshlot
  • 382 stöðuvatnshlot
  • 76 strandsjávarhlot
  • 313 grunnvatnshlot
  • 77 árósavatnshlot (afmörkuð en bíða gerðaskiptingar vegna vöntunar á gögnum)

Út frá fyrirliggjandi álagsgreiningu hafa 18 þessara vatnshlota verið skilgreind í óvissu um hvort þau nái umhverfismarkmiðum sínum.

Tvö vatnshlot hafa verið skilgreind í hættu að ná ekki umhverfismarkmiðum sínum. Þar verður farið í markvissar aðgerðir samkvæmt aðgerðaráætlun.

Snertifletir við almenning

Snertifletir vatnaáætlunar við almenning eru margvíslegir.

Sem dæmi má nefna að þegar sveitarfélög vinna að skipulagsmálum er mikilvægt að skipulag samræmist markmiðum vatnaáætlunar. Þannig þarf að gæta að því að vatnshlotin sem eru innnan skipulagssvæðisins nái settum umhverfismarkmiðum. Gera þarf grein fyrir grunnástandi vatnshlotanna og því hvort framkvæmdir innan skipulagssvæðis muni leiða af sér breytingar á ástandi þeirra.

Annað dæmi um áhrif vatnaáætlunar á okkar daglega líf eru mælingar sem eru gerðar á mengandi efnum í vatnaumhverfinu okkar innan þéttbýlis og sú vitneskja sem skapast í kjölfarið. Með vöktun mengandi efna í vatni getum við tekið upplýstar ákvarðanir í umgengni okkar við vatnshlotin og áætlun um úrbætur í tengslum við þau.

Hlutverk Umhverfisstofnunar

Verndun vatns er sem fyrr segir, samvinnuverkefni og gengur þvert á stofnanir, stjórnvöld, hagsmunaaðila og almenning.

Umhverfisstofnun fer með stjórnsýslu og framkvæmd laga um stjórn vatnamála og hefur þar með yfirumsjón með innleiðingunni og samstarfinu.

Umhverfisstofnun heldur úti vefnum vatn.is. Þar má finna gögn og upplýsingar sem tengjast stjórnun vatnamála, vatnavefsjá þar sem vatnshlot og viðeigandi upplýsingar um ástand þeirra eru sýnd á korti og gagnagrunn sem heldur utan um vöktunarniðurstöður vatnshlotanna.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Verndun vatns og sjálfbærni þess gegnir mikilvægu hlutverki í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Vatnaáætlun er í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu (nr 6) og líf í vatni (nr 14).