Ávarp

Sigrún Ágústsdóttir - forstjóri

Framþróun á tímum breytinga

Á sama tíma og miklar breytingar hvað varðar Umhverfisstofnun eru í farvatninu hefur stofnunin haldið áfram að þróa starfsemina og leita nýrra leiða til að þjónusta fólk og náttúru.

Ný þjóðgarðsmiðstöð hefur verið opnuð á Hellissandi fyrir Snæfellsjökulsþjóðgarð. Niðurstaða er komin í samkeppni um sýningu í gestastofu í Mývatnssveit og efnt hefur verið til samvinnu um stjórnunar- og verndaráætlanir fuglategunda í íslenskri náttúru.

Um leið hrakar líffræðilegum fjölbreytileika í Norðaustur-Atlandshafi. Íslensk stjórnvöld þurfa því að hafa augun á skuldbindingu sinni samkvæmt Samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Áfangi sem styður það markmið var friðlýsing Bessastaðaness sem er mikilvægur viðkomustaður farfugla. Efla þarf til framtíðar vinnu við stjórnunar- og verndaráætlanir friðlýstra svæða en langt er í land með að ná settum markmiðum samkvæmt lögum í því efni.

Mengun sem ekki er stýrt með viðeigandi hætti er ógn við náttúru og samfélag. Mikilvæg skref hafa verið stigin við að kortleggja mengaðan jarðveg og gefa út leiðbeiningar með viðmiðunargildum. Einnig hefur byggst upp lærdómur sem skilar sér í tillögum til umbóta.

Með öflugu bókhaldi yfir losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum skapast góður grunnur að ákvarðanatöku. Með nýrri stefnu stofnunarinnar sem kom til framkvæmda á árinu 2023 er markmiðið að styðja með öflugum hætti við markmið Íslands í loftslagsmálum. Liður í því er Loftslagsdagurinn sem gerir stjórnvöldum, almenningi og atvinnulífi betra tækifæri til að sjá með skýrari hætti hvar sóknarfærin liggja til að draga úr losun og auka bindingu.

Þáttaskil í úrgangsmálum eru að eiga sér stað með samræmdum merkingum og sérsöfnun lífræns úrgangs á höfuðborgarsvæðinu. Hugmyndaauðgi og jákvæð nálgun einkennir starf stofnunarinnar þegar kemur að hringrásarhagkerfinu. Spjaraþon og nú Tækjaþon eru dæmi um hugmyndasmiðjur sem skilað hafa nýsköpunarverkefnum í samfélagið í formi nýrra lausna og nýrra fyrirtækja.

Stafræn námskeið á vegum stofnunarinnar eru í sókn og haldið er áfram að byggja upp aðstöðu fyrir starfsfólk um allt land með það fyrir augum að búa sem best að mannauði þar sem starfsfólk kýs að búa. Selfoss kom inn á kortið en þar er skrifstofuhótel sem innviðaráðuneytið tók frumkvæði í að nýta fyrir starfsemi ríkisins.

Ýmis afgreiðslu- og þjónustuverkefna hafa verið að færast til Umhverfisstofnunar frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og er stofnunin þakklát fyrir traustið.

Ný þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi

Þjóðgarðsmiðstöð fyrir Snæfellsjökulsþjóðgarð var opnuð formlega á Hellissandi þann 23. mars 2023. Þjóðgarðsmiðstöðin er lyftistöng fyrir ferðaþjónustu og samfélagið allt á Snæfellsnesi. Í þjóðgarðsmiðstöðinni er gott kennslurými til að taka á móti skólahópum á öllum stigum. Rými er til staðar fyrir tímabundnar sýningar um sögu, listir og vísindi. Þá er einnig minjagripasala, veitingasala og tímabundin skiltasýning sem fjallar almennt um þjóðgarðinn.

Lesa meira

Átak um mengaðan jarðveg

Umhverfisstofnun blés til átaks í að safna ábendingum frá almenningi um menguð svæði á landinu og koma þeim inn á kort. Þekking á gömlum menguðum svæðum er að miklu leyti geymd í hugum eldra fólks. Það var því mikilvægt að ná til þeirra með upplýsingar um átakið. Ein af leiðunum sem Umhverfisstofnun fór til að ná til markhópsins var að útbúa þraut tengda verkefninu og birta í prentmiðlum.

Lesa meira

Stórar breytingar í úrgangsmálum

Í upphafi árs 2023 tóku gildi ný lög sem hafa verið nefnd einu nafni hringrásarlögin. Lögin fjalla um meðhöndlun úrgangs, mengunarvarnir og úrvinnslugjald. Breytingarnar hafa víðtæk áhrif á almenning, sveitarfélög og atvinnulífið allt.

Innleiðing hringrásarhagkerfis var því fyrirferðarmikil í starfsemi Umhverfisstofnunar á árinu enda hefur stofnunin óteljandi snertifleti við málaflokkinn.

Lesa meira

Loftgæðamælingar vegna eldgosa á Reykjanesskaga

Í desember 2019 sáu jarðvísindamenn fyrstu merki um kvikuhreyfingar á 3-7 km dýpi undir Fagradalsfjalli. Það varð fljótlega ljóst að hafin var atburðarrás neðanjarðar sem gæti leitt til eldgoss en ekki hafði komið upp eldgos á Reykjanesskaga í næstum 800 ár

Á þessum tíma var Umhverfisstofnun ekki með neinar loftgæðamælistöðvar á Suðurnesjum. 

Lesa meira