Umhverfisstofnun blés til átaks í að safna ábendingum frá almenningi um menguð svæði á landinu og koma þeim inn á kort.

Upplýsingar sem ekki mega glatast

Upplýsingar um mengaðan jarðveg eru mikilvægar fyrir komandi kynslóðir.

Upplýsingarnar nýtast mikið við skipulagsvinnu. Til dæmis til að koma í veg fyrir að byggð sé skipulögð á svæði þar sem hætta er á heilsuspillandi mengun.

Það er því áríðandi að skrá eins mikið af upplýsingum um mengaðan jarðveg og hægt er áður en þær glatast.

„Hjálpaðu okkur að finna mengun“

Þekking á gömlum menguðum svæðum er að miklu leyti geymd í hugum eldra fólks. Það var því mikilvægt að ná til þeirra með upplýsingar um átakið.


Ein af leiðunum sem Umhverfisstofnun fór til að ná til markhópsins var að útbúa þraut tengda verkefninu og birta í prentmiðlum. Þrautin var stafarugl og yfirskriftin var: „Hjálpaðu okkur að finna mengun“.

Auglýsingarnar voru unnar í samstarfi við TVIST - auglýsingastofu.

Hringferð og fjölmiðlar

Verkefnastjóri átaksins fór einnig í hringferð á starfsstöðvar Umhverfisstofnunar vítt um landið. Hún auglýsti þar opna tíma til þess að hitta fólk og aðstoða það við að setja inn ábendingar.

Hún fór einnig í útvarps- og sjónvarpsviðtöl og kynnti verkefnið á mannamáli.


Úr mengunareftirliti. Kristín Kröyer, verkefnastjóri átaksins og Halla Margrét Viðarsdóttir, báðar sérfræðingar í teymi mengunareftirlits.

175 ábendingar um menguð svæði

Síðan verkefnið hófst hafa Umhverfisstofnun borist 175 ábendingar og úr þeim hafa verið skráð um 150 ný mál í gagnagrunninn um mengaðan jarðveg.

Næstu skref eru svo að halda áfram að kynna verkefnið með því að halda fleiri staðfundi, hitta eldri borgara og vinna áfram með þau gögn sem hafa borist.