Í upphafi árs 2023 tóku gildi ný lög sem hafa verið nefnd einu nafni hringrásarlögin. Markmið laganna er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis. Lögin fjalla um meðhöndlun úrgangs, mengunarvarnir og úrvinnslugjald. Breytingarnar hafa víðtæk áhrif á almenning, sveitarfélög og atvinnulífið allt.

Innleiðing hringrásarhagkerfis var því fyrirferðarmikil í starfsemi Umhverfisstofnunar á árinu enda hefur stofnunin óteljandi snertifleti við málaflokkinn.

Átakið: Allan hringinn

Umhverfisstofnun leiddi átakið Allan hringinn sem er samstarfsverkefni á vegum stofnana, sveitarfélaga, rekstraraðila í úrgangsþjónustu og hagsmunasamtaka í atvinnulífinu. Markmiðið með Allan hringinn er að kynna þær breytingar sem urðu á úrgangsmálum árið 2023 í kjölfar gildistöku hringrásarlaganna og hvetja landsmenn til að taka þátt í hringrásarhagkerfinu.


Hópurinn sem stóð að baki verkefninu Allan hringinn. Fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Úrvinnslusjóði, Endurvinnslunni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, SORPU, Terra umhverfisþjónustu, Íslenska gámafélaginu, Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.

Hvað breyttist til hins betra á árinu?

Nýjungar í úrgangsmálum á árinu snerta alla þátttakendur samfélagsins. Tekið var upp sameiginlegt flokkunarkerfi á úrgangi um allt land. Samkvæmt nýrri löggjöf er nú skylda að flokka pappír, plast, lífúrgang, textíl, málma og gler á öllum heimilum og fyrirtækjum. Koma átti upp söfnun á plasti, pappír, lífúrgangi og blönduðum úrgangi á öllum heimilum og urðun flokkaðs úrgangs varð óheimil.

Önnur nýjung var að tunnur og ílát fyrir úrgang fengu samræmdar merkingar sem FENÚR þýddi og staðfærði. Umhverfisstofnun hefur nú verið falið að hafa umsjón með merkingunum. Notkun merkinganna er ókeypis og þær hafa notið talsverðra vinsælda.


Samræmt flokkunarkerfi var tekið upp um allt land.

Borgað þegar hent er

Breyting varð einnig á úrgangsmálum sveitarfélaganna í hringrásarlögunum en þar er að finna ákvæði um gjaldheimtu sveitarfélaga fyrir sorphirðu. Innleiðing sveitarfélaga á nýju gjaldheimtukerfi sem kallast Borgað þegar hent er hófst á árinu og mun verða í þróun á næstu árum. Markmiðið með Borgað þegar hent er kerfinu er að handhafi úrgangs greiði fyrir þann úrgang sem hann lætur frá sér. Þannig eigi kerfið að búa til hvata til þess að minnka magn úrgangs sem fellur til og auka flokkun úrgangs því í kerfinu er einnig heimild til að innheimta hærri kostnað fyrir óflokkaðan úrgang.

Fjölbreytt upplýsingagjöf

Umhverfisstofnun hafði í nógu að snúast í upplýsingagjöf um þær breytingar sem áttu sér stað á árinu. Stofnunin uppfærir reglulega handbók fyrir sveitarfélög um hvernig þau geti útfært úrgangsmál á sínu svæði og miðlar upplýsingum um tölfræði og öðru gagnlegt efni á vefnum úrgangur.is.

Íslenska úrgangsfjallið var sett upp á viðburði til þess að vekja athygli á verkefninu Allan hringinn.

Ísland er í sjöunda sæti yfir þær þjóðir innan Evrópu sem henda mestu magni af heimilisúrgangi á hverju ári eða að meðaltali um 667 kg á hvern Íslending. Að því tilefni var íslenska úrgangsfjallið reist, táknræn 667 kg ruslahrúga inni í Góða hirðinum.


Táknræn 667 kg ruslahrúga

Við erum öll „í rusli“

Innleiðing hringrásarhagkerfisins fékk verðskuldaða athygli á árinu 2023 og skýrar vísbendingar um að áhugi fyrirtækja, almennings og stjórnvalda á að gera betur í hringrásarhagkerfinu hafi aukist á síðustu mánuðum.

Augu Íslands eru á hringrásarhagkerfinu, bæði á liðnu ári og því næstu. Haldið áfram að vera „í rusli“ með okkur og takk fyrir að taka þátt í góðum árangri á liðnu ári.

Ljósmyndir: Anton Brink